Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:10]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við greiðum atkvæði hér í dag um það hvort leyfa eigi fyrirspurn sem varðar starfsemi og vinnugagn ríkisendurskoðanda. Fyrirspurninni var synjað af forseta þar sem hún varðar starfsemi ríkisendurskoðanda en ekki stjórnsýslu Alþingis og stangast því á við þingsköp. Skýrt er að starfsemi ríkisendurskoðanda fellur ekki undir stjórnsýslu Alþingis. Þegar við greiðum atkvæði hér í dag er mikilvægt að hafa í huga að Alþingi ber að fara að lögum. Þetta snýst ekki um geðþóttaákvörðun eða pólitík heldur snýst þetta um hvort við ætlum að fara eftir settum lögum. Vinnugögnin sem hér um ræðir eru í eigu ríkisendurskoðanda sem er sjálfstæður og óháður í sínum störfum og var vinnugagnið afhent þinginu sem slíkt. Aftur á móti er afar mikilvægt að það ríki gagnsæi í okkar störfum og við eigum að leita allra leiða til að tryggja að svo sé. Það liggur fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ákveðið að taka málið upp að nýju og kalla inn bæði núverandi og fyrrverandi ríkisendurskoðendur þar sem farið verður yfir málið. Þar með teljum við að málið sé í réttum farvegi og því mun ég hafna því að fyrirspurnin verði leyfð.