Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:16]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er rangt hjá hæstv. forseta og hv. þingflokksformönnum Vinstri grænna og Framsóknarflokksins að fyrirspurnin mín fjalli um starfsemi ríkisendurskoðanda. Fyrirspurnin fjallar um skjal sem hefur verið afhent Alþingi og er ekki lengur á forræði ríkisendurskoðanda. Við erum hér að tala um skýlausan rétt alþingismanna til að spyrja hæstv. forseta um stjórnsýslu Alþingis, um skjal sem er, samkvæmt bréfi frá forseta sjálfum, hluti af stjórnsýslu Alþingis. Þetta er alger farsi. Skjalið uppfyllir þannig óumdeilanlega skilyrði þingskapalaga. Þetta er skjal sem upplýsingalög ná til samkvæmt lögfræðiáliti sem forsætisnefnd aflaði sér og forsætisnefnd sjálf hefur ákveðið að birta þetta skjal á grundvelli upplýsingalaga einmitt á þeim forsendum að upplýsingalög taki til stjórnsýslu Alþingis. Fólk er í mótsögn, bullandi mótsögn. Ég biðla til þingmanna í öllum flokkum að velta því mjög vandlega fyrir sér hvers konar fordæmi er verið að setja hér ef mér verður í alvörunni bannað, í krafti meirihlutavalds, (Forseti hringir.) að spyrja spurninga um þetta mál. Það er, virðulegi forseti, gerræðislegt. Ég ætla bara að vara mjög eindregið við þeim álitshnekki fyrir löggjafarsamkunduna sem mun felast í því.