Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér þarf að fylgja lögum, sagði hv. þm. Brynjar Níelsson. Í lögunum stendur vissulega, í 2. mgr. 91. gr., að undir stjórnsýslu Alþingis falli ekki Ríkisendurskoðun. En hér erum við að tala um greinargerð sem send var Alþingi þar sem greinargerðarhöfundur óskaði eftir að fá að koma og gera betur grein fyrir umræddri greinargerð. Hann hefur komið fyrir dóm í opið þinghald og gert grein fyrir innihaldi þessarar greinargerðar. Forseti Alþingis lýsti því yfir að forsætisnefnd hygðist, á grundvelli lögfræðiálits, birta umrædda greinargerð enda væri það hluti af stjórnsýslu Alþingis að gera svo á grundvelli upplýsingalaga. Við erum því alltaf að vísa í lögin, hv. þingmaður. Við erum alltaf endalaust að vísa í lögin. En það þýðir ekki að vera einhvern veginn svo sértækur á lögin að nýta þau bara þegar þau eru í þágu formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki þannig. (Forseti hringir.) Við þurfum að nýta lögin þannig að þau standist, að þau standist hér inni. Við erum með þingskapalög, við erum með stjórnsýslulög, við erum með upplýsingalög. Þurfum við fleiri?