Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Af þessari atkvæðagreiðslu er okkur öllum að verða ljóst að til stendur að koma í veg fyrir að fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar geti farið til forseta. Með þessu er stjórnarmeirihlutinn að setja enn eitt hættulega fordæmið þegar kemur að eftirlitshlutverki Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þetta er ekki fyrsta dæmið og því miður, miðað við framgönguna í dag, verður þetta væntanlega ekki síðasta dæmið. Þegar frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var komin aðeins of langt fyrir stjórnarliða, um hæfi ráðherra, er henni lokað með bókun. Stórhættuleg aðför að eftirlitshlutverki Alþingis. Þegar óskað var eftir lögfræðiáliti um hæfi ráðherra var því hafnað í atkvæðagreiðslu. Þegar óskað var eftir lögfræðiáliti um hvort stjórnarfrumvarp stæðist stjórnarskrá þá var sagt nei við því og nú þetta, fyrirspurn frá þingmanni sem forseti sjálfur hefur viðurkennt að snúist um stjórnsýslu þingsins í bréfi — svarið er nei. Þetta er hættulegt fordæmi sem stjórnarmeirihlutinn er að setja og þetta er virðingarleysi gagnvart því hlutverki sem Alþingi hefur gagnvart því að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

(Forseti (BÁ): Þingmaðurinn segir?)

Já.