Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

kolefnisbinding.

676. mál
[18:51]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn frumkvæði hv. þingmanns að setja þetta á dagskrá. Það er sannarlega rétt sem kemur fram í máli þingmannsins að það er margt óljóst í þessum málum og mikilvægt að við vinnum að því að róa öll í sömu átt, hvort sem það er í stjórnkerfinu, stofnununum, í samskiptum við bændur eða íbúa í hinum dreifðu byggðum, vegna þess að til að viðhalda frumkvæði og áhuga almennings í landinu, landeigenda, bænda og annarra sem þar hafa möguleika á að koma nálægt, þá náum við frekar árangri ef þetta liggur skýrt fyrir.

Hv. þingmaður nefnir líka að lokum sjónarmið sem lúta að landnotkuninni almennt og skrásetningu á slíku; flokkun á landi, sem er auðvitað gríðarlega mikilvæg, bæði fyrir hefðbundinn landbúnað og útiræktun og ekki síður endurheimtarverkefni og verkefni sem hér eru til umfjöllunar í landgræðslu eða skógrækt. Ég tek mikið mark á hvatningu hv. þingmanns í þeim efnum að hafa þétt og gott samráð við bændur í þessum efnum. Það hefur raunar skipt miklu máli í mínu ráðuneyti og þar er mikill skilningur á mikilvægi þess að vera í því samtali. Ég held raunar að það skipti miklu máli, sem tengist öðru umræðuefni hér áðan, að því er varðar nýliðun í landbúnaði og hvatningu til ungra bænda til að taka þátt í framtíðarverkefnum. Því held ég að þetta snúist í raun og veru líka með óbeinum hætti um byggðaþróun, byggðasjónarmið, möguleika á nýliðun og að kalla unga bændur til verka.