Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi.

245. mál
[19:41]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni þá spyr ég hæstv. ráðherra hver hans stefna sé þegar kemur að aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi. Við þekkjum þennan veruleika sem fatlaðir einstaklingar, fötluð ungmenni, standa frammi fyrir, að Ísland er ekki land jafnra tækifæra. Það er ekki hægt að segja það eins og staðan er núna. Engu að síður hafa smá skref verið stigin í gegnum tíðina. Við þekkjum það og ég þekki það vel þegar ég sem þáverandi ráðherra menntamála fór af stað í samvinnu við Háskóla Íslands með diplómanám fyrir fötluð ungmenni, en það er mjög langt síðan það var. Það var 2007, minnir mig, frekar en 2006. Síðan þá hefur kannski ekki þokast mikið áfram þegar kemur að því að jafna aðgengi að háskólanámi og þá meina ég raunverulega að jafna þetta aðgengi.

Það rúmast innan laga um háskóla að bjóða upp á starfstengt nám og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé að leita leiða til að bjóða upp á alvöruval þannig að fötluð ungmenni geti raunverulega valið um nám á sínu áhugasviði. Mig langar líka til að spyrja og fylgja því eftir þegar opnaðist í haust ákveðin gátt þegar tvö ungmenni fengu að sækja kúrsa innan síns áhugasviðs, hvort sú gátt verði opin áfram og hún verði tryggð. Verður eftirfylgni með þessu? Allt eru þetta jákvæð skref en það er ekkert fast í hendi. Ég vil ekki síst þakka Þroskahjálp fyrir það að hafa ótrauð bent á þessa galla í kerfinu fyrir fötluð ungmenni, hvort sem þau eru með þroskahömlun eða ekki. Það hefur verið veitt gríðarlega mikilvægt og dýrmætt aðhald af hálfu þeirra hagsmunasamtaka sem Þroskahjálp er.

Mig langar líka að ræða við hæstv. ráðherra hvort fram hafi farið einhver rýni til úrbóta innan Listaháskóla Íslands af því að allt tengist þetta spurningunni um stefnu ráðherra þegar kemur að aðgengi fatlaðra að háskólanámi. Ég ætla ekki að áfellast ráðherra ef hann veit ekki svarið, bara fyrir forvitnissakir af því að þetta hefur líka verið í umræðunni, hvort farin sé af stað einhver rýni til úrbóta í samvinnu við Listaháskólann gagnvart fötluðu fólki sem svo sannarlega getur notið sinna hæfileika innan þess háskóla eins og annars staðar í samfélaginu.

Ég hlakka til að heyra hver stefna ráðherra er þegar kemur að aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi og ég veit að hæstv. ráðherra er metnaðarfull í þeim efnum.