Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[14:47]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að byrja á því að segja að með þessu frumvarpi, verði það að lögum, erum við að stíga mjög mikilvægt skref í því að lögfesta þjónustustöðvar Vinnumálastofnunar um allt land. Þannig er það ekki í dag. Við erum þannig líka með aðgerð í byggðamálum í þessu frumvarpi, sem er ekki mjög stórt en við erum með mjög mikilvæga byggðaaðgerð inni í því sem nær langt út fyrir í rauninni Fjölmenningarsetur á Ísafirði. Ég held að það sé mikið gæfuskref ef við getum sameinast um það. Við megum heldur ekki gleyma því að sú starfsemi sem Fjölmenningarsetur sinnir í dag, sem sinnir auðvitað öllu landinu, er núna á tveimur stöðum; er með starfsemi í Reykjavík og á Ísafirði. En með þessari sameiningu getum við horft fram á það að það sé einfaldara fyrir sameinaða stofnun að sinna þeim verkefnum í meira návígi við fólk úti um allt land og það er líka jákvætt. En síðan aðeins að því samtali sem hefur átt sér stað fyrir vestan, á Ísafirði. Ég átti fund með bæjarstjórninni í nóvember, ef ég man rétt, þar sem ég kynnti þessi áform og kynnti líka þau áform að efla starfsstöð Vinnumálastofnunar á Ísafirði. Þar eru tvö stöðugildi í dag og rúmlega tvö hjá Fjölmenningarsetri. Við erum að miða við að það haldi áfram, við myndum byrja á því að bæta við tveimur stöðugildum í sérstök verkefni, ný verkefni sem eru þá í vinnslu og útfærslu hjá Vinnumálastofnun, sem ég veit að er ekki komin á endastöð með það eða með lokatillögur, (Forseti hringir.) einfaldlega vegna þess að sameiningin hefur ekki gengið í gegn, en ég get farið betur í það í síðara andsvari.