Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

118. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið og áhuga hans á þessu máli sem er mikilvægt. Smávirkjanir eru náttúrlega umhverfisvænar af því að við erum ekki að tala um stór miðlunarlón. Þetta eru bara rennslisvirkjanir og maður hefur séð að þær hafa verið að spretta upp víða um landið. Þegar maður keyrir fram hjá og það eru einhver ár, jafnvel kannski bara þrjú ár, liðin frá framkvæmdinni þá er það eina sem vekur athygli manns, það er stöðvarhúsið. Allt annað er óbreytt. Ég held að það skipti miklu máli. Fyrir utan það styrkir þetta dreifikerfið. Við þekkjum það fyrir vestan þar sem við erum ekki hringtengd og dreifikerfið skiptir miklu máli og er viðkvæmt þar sem það er ofan jarðar og berskjaldað fyrir veðrum og vindum. Þá hafa þeir verið að nýta þessar virkjanir til þess að geta lokað kerfinu. Í Önundarfirði til dæmis eru þrjár smávirkjanir og þeir geta þá lokað kerfinu og keyrt á þeim bara. Þetta skiptir máli fyrir þá sem eru á þeim svæðum.

Hv. þingmaður kom inn á sólarorkuna. Nú þekki ég bara alls ekki neitt umhverfið í kringum það. Sjálfsagt er það öðruvísi að einhverju leyti. Ég held að það sé góð tillaga að taka það með inn í og skoða umhverfið í kringum það, sem þó er öðruvísi en hvað varðar t.d. smávirkjanir þar sem þarf að kanna fuglalíf og annað. Ég bara veit þetta ekki. Ég hef ekki kunnáttu til að svara þessari spurningu. En hugmyndin er góð og allra gjalda vert að skoða það betur.