Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

ákvörðun nr. 59/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn o.fl.

805. mál
[12:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Ég nefni það að í ljósi þess að ekki er búið að leggja fram innleiðingarfrumvarpið að þá á það eftir að fara í ferli og inn á samráðsgátt og hægt að gera þá athugasemdir ef tilefni er til, sem ég hef ekki upplýsingar um hvort er til staðar eða ekki. Eins og segir í greinargerð með innleiðingarfrumvarpi þá gæti, eins og ég skil þetta, framkvæmdin verið til dæmis á þá leið að áður en efni spilast sem merkt hefur verið fyrir til dæmis aldurinn 18 ára eða eldri, þá opnast gluggi sem varar við því að efnið gæti innihaldið ofbeldi eða annað sem á við eða sé ekki ætlað að notendum undir 18 ára aldri eða 12 ára aldri eftir því sem við á og notendur eru beðnir um að setja inn fæðingarár til staðfestingar á aldri sínum. Þarna er auðvitað ákveðið jafnvægi sem þarf að ná og vissulega skiptar skoðanir um það hversu langt eigi að ganga til að vernda börn fyrir, auðvitað á stundum, viðbjóðslegu efni á netinu án þess að sleppa því lausu að hver og einn frjáls einstaklingur sé vaktaður með allt sem viðkomandi gerir á netinu, sem verður auðvitað sífellt meira, hvort sem það er í raun opinbert eftirlit eða eftirlit sem einkafyrirtæki með sínum búnaði eða skyldu til að setja upp búnað sé gert að stunda. Ég hvet hv. þingmann og aðra til að vakta það og fylgjast með því þegar frumvarp ráðherra kemur á samráðsgátt. Mögulega verður þá tilefni til að ræða það hér hversu langt er hægt að ganga í að réttlæta ákveðið aukið eftirlitshlutverk einkaaðila eða hins opinbera á netumferð í þeim tilgangi að vernda börn. Mér finnst almennt mikilvægt og heilbrigt að hafa varann á því og ganga ekki of langt í þeim efnum.