Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki búinn að vera lengi á þingi, eins og hv. þingmaður nefnir. Ég er heldur ekki löglærður þannig að í nefndarvinnu t.d. reiðir maður sig auðvitað svolítið mikið á umsagnir sérfræðinga, sem eru þá mættir til að reyna að benda á það sem betur má fara, það sem gott er og allt þar fram eftir götunum. Þegar t.d. fram kemur umsögn frá aðila, sem beinlínis sérhæfir sig í því að fjalla um mannréttindi, þar sem segir að það vanti einhvers konar stjórnskipulega úttekt eða einhverja úttekt á því hvort lögin standist almennilega þær skuldbindingar sem stjórnarskráin leggur okkur á herðar, þá kallar maður auðvitað eftir því að það verði gert. Svo er verið að krefja mann svara um það hvar nákvæmlega í frumvarpinu mesta hættan er og annað. Þegar er verið að benda á það að slík vinna þurfi að fara fram gagnvart tilteknum ákvæðum þá vill maður auðvitað fá að sjá þá niðurstöðu áður en að við sem ekki erum löglærð getum tekið afstöðu til þess (Forseti hringir.) áður en við komum hingað til þess að greiða atkvæði um það í þingsal. (Forseti hringir.) Auðvitað á það að vera þannig að þegar mál koma frá ráðuneytum þá á að vera búið að ganga úr skugga um hvort þau standist stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Ég hefði haldið að menn væru nú nokkuð vel áttaðir á því að þetta er auðvitað grundvöllur alls lagaverksins og allt þarf að hvíla á styrkum stoðum gagnvart stjórnarskrá.