Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:52]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hér var flutt áhugaverð ræða. Mér finnst brýnt að fá fram skýrari stefnu Viðreisnar í málaflokknum vegna þess að það er ekki annað að heyra en að menn líti bara á það að þeir, sem hingað rekur upp á fjörur landsins, séu sjálfkrafa einhver mikill ávinningur. Það er ekki alveg þannig. Þess vegna er virk landamæragæsla mjög mikilvæg. Það er líka alveg ljóst að það fylgir þessum málaflokki gríðarlegur kostnaður. Í fjárlaganefndinni í morgun kom fram að það væri fyrirséð að það væri að koma 2.600 millj. kr. aukareikningur sem ekki var gert ráð fyrir í ár. Það skiptir því miklu máli að við förum vel yfir þessa umræðu og vöndum hana, að við förum ekki að úthrópa þá sem vilja koma á raunverulegri stjórn landamæranna og herða hér reglur eða koma á einhverri forgangsröðun, þannig að þeir sem standa verr að vígi eigi þá frekar forgang en þeir sem standa betur. (Forseti hringir.) Það að verða vitni að því hér í umræðunni að fólk er úthrópað fyrir að ætla að útiloka efnahagslega flóttamenn — mér var eiginlega misboðið hér fyrr í dag.