153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:49]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þekki ekki sögu norska olíusjóðsins nægilega vel til að geta rakið það hvernig það atvikaðist að hann fjárfestir nánast allt sitt erlendis. Væntanlega hefur það átt sér stað á einhverjum tíma og Norðmenn telja þá að það sé rétt að þessir fjármunir séu ekki nýttir til þátttöku í norsku efnahagskerfi en við viljum ekki hafa það nákvæmlega þannig. Við viljum nýta okkar lífeyrissjóði til þátttöku í efnahagskerfi okkar á einhvern hátt. Það er bara spurning um jafnvægið sem þarf að vera til staðar þannig að breyting á þessu raski ekki einhverju jafnvægi innan lands. Jú, þessi rafræna birting sem hv. þingmaður nefnir hér, íslenskir lífeyrissjóðir koma bara vel út úr þessu. Ég held að við getum verið sammála um það. En það eru ákveðin flækjustig í lífeyrissjóðunum. Við erum með samtryggingarsjóði, við erum með tilgreinda séreign. Við erum síðan með séreignarsjóði þar fyrir utan. Þetta er svolítið stór pakki að ná utan um og ég er ekkert viss um að hver og einn lífeyrissjóður þurfi upplýsa alla um allt. Það eru ákveðnir hlutir sem eru eins í öllum lífeyrissjóðum og við getum verið með einhvern gagnagrunn, eins og lífeyrisgáttin er í raun og veru, þar sem hægt er að setja grunnupplýsingar um alla lífeyrissjóði. En að sjálfsögðu styð ég það og að lífeyrissjóðirnir eða stéttarfélögin sjái til þess að fólk átti sig á því hvað það er að gera þegar það byrjar að safna í lífeyrissjóð.