153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom með mikilvægan punkt hérna rétt áðan. Það getur nefnilega stundum verið þannig að það sé ekki þörf eða skylda að birta tiltekin gögn, en upplýsingaréttur almennings er þannig að stjórnvöldum er ávallt heimilt að birta gögn sem þeim er kannski ekkert endilega skylt að birta, svo fremi sem einhver önnur þagnarskyldusjónarmið koma ekki á móti. Við höfum ekki enn fengið neinar upplýsingar um það hvað mælir í raun gegn því að þessar upplýsingar verði birtar.

Þá langar mig til að gera athugasemd við það sem kom fram hérna áðan um að settur ríkisendurskoðandi sé bara fullmeðvitaður um hverju hann megi greina frá og hverju ekki. Ég held að hann skilji hvorki upp né niður. Hann hefur komið fram og sagt að hann skilji ekki hvers vegna greinargerðin er ekki birt. Hann vill að hún verði birt í heild sinni. Ég held hann telji sig færan um að tala um þetta allt saman, það skilur enginn um hvað trúnaðurinn gildir hérna. Það er bara leikrit að boða manninn á opinn fund og reikna með að hann viti hvað hann má tala um, sem er búið að segja honum að ekki megi tala um og enginn veit af hverju. Þetta er bara farsi og leikrit.