153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:56]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum nú komin á leiðarenda í ansi langri og flókinni vegferð sem hefur staðið yfir í nokkur ár. Ég er hér komin til að styðja þetta frumvarp svo breytt. Ég hefði ekki getað stutt það í upphafi þegar ég settist hér á þing. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd langar mig að þakka samstarfið. Okkur hefur tekist vel að vinna málið. Við erum ekki öll sammála en ég í sannfæringu minni trúi því að við séum hér að afgreiða mál sem er flókið en við erum að gera rétt með því að segja já í dag. Það er búið að vinna málið gríðarlega vel, miklu betur og lengur en nokkurt annað mál sem ég hef komið að í þessu þingi. Við höfum fengið fjölmarga gesti og orðið hefur verið við beiðnum sem komu fram í umsögnum. Mörgum þeirra hefur verið svarað og brugðist við og fyrir það er ég ákaflega þakklát (Forseti hringir.) og ég þakka nefndinni fyrir gott samstarf.