Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

staða ríkisfjármála.

[15:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það fór eins og marga grunaði strax árið 2017 að þegar ríkisstjórn var mynduð ekki um pólitíska stefnu eða sýn þá myndi hún snúast bara um stólana, stólaskipti og eyðslu. Það hefur aldeilis komið á daginn og við sjáum afleiðingarnar. Ríkisstjórnin hefur leitt verðbólguþróun með gjaldahækkunum og gegndarlausri eyðslu. Verðbólga nær nýjum hæðum þrátt fyrir að stríðsverðbólgan sé liðin hjá. Á Covid-tímabilinu sagðist ríkisstjórnin þurfa að eyða óvenju miklum peningum og allir skildu það af því það fylgdi sögunni að strax og faraldurinn væri liðinn hjá eða efnahagsleg áhrif hans yrði ráðist í sparnað til að greiða niður skuldirnar. Annað kom á daginn. Ríkisstjórnin taldi sig hafa myndað nýjan grunn í útgjöldum og byggði svo ofan á hann, sló öll met í ríkisútgjöldum. Bætti svo við í nefnd, heldur betur, núna síðast og nú heyrum við af því að hallinn verði enn þá meiri vegna þess að jafnvel þessar stórkostlegu áætlanir um útgjaldaaukningu dugðu ekki til til að gera grein fyrir hallarekstri ríkisins. Afleiðingin er sú að vörur og þjónusta hækka og Seðlabankinn grípur til vaxtahækkana sem leiðir til aukinnar greiðslubyrði vegna húsnæðislána.

Hæstv. forsætisráðherra fór í viðtöl við fjölmiðla um þetta mál fyrir nokkrum dögum, nú um helgina, og sagði skuldastöðuna vera góða. Hún var góð, hæstv. forseti, þar til þessi ríkisstjórn tók við. Fleiri vildu lána Íslendingum peninga á lægri vöxtum en beðið var um. Það er breytt. Nú eru vextirnir sem ríkisstjórnin þarf að greiða einhverjir þeir hæstu í Evrópu. Við erum ekki í samdrætti, sagði hæstv. forsætisráðherra. Hvernig gætum við verið í samdrætti þegar ríkisstjórnin eyðir eins og enginn sé morgundagurinn? Hæstv. ráðherra sagði líka að brugðist yrði við með aukinni tekjuöflun. (Forseti hringir.) Hvað er hér lagt til? Að auka enn skatta á almenning? Á það að hjálpa til við að fást við verðbólguna? (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er ekki búinn að telja upp afrek þessarar ríkisstjórnar á verðbólgusviðinu, verð að gera það í næsta andsvari, (Forseti hringir.) en hæstv. forsætisráðherra getur hugsanlega byrjað að svara einhverju.