Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

tillaga til þingsályktunar um vistmorð.

192. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé hennar persónulega skoðun að það sé bara tímaspursmál þangað til umræðan um vistmorð kemst almennilega á skrið, nær á blað á alþjóðavísu. Ég er þessu hjartanlega sammála. Ég held nefnilega að það sé óumflýjanleg þróun að viðurkenning vistmorðs sem alþjóðlegs glæps verði að veruleika. Þessi leiðarvísir sem meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar kom með í nefndaráliti fyrir tæpu ári varðandi að það þyrfti að greina lagaumhverfið og meta mögulegt álag á Alþjóðlega sakamáladómstólinn — mér finnst þetta vera óþarfa varkárni. Mér finnst vel hægt að taka umræðuna miklu lengra áður en við förum að greina allt í ræmur. Ég er hræddur um að ef við bíðum eftir þeim greiningum þá gætum við hreinlega misst af lestinni. Við gætum ekki bara misst af þeirri lest að Ísland myndi skipa sér í forystu þeirra ríkja sem berjast fyrir grænni og sjálfbærri framtíð heldur gætum við misst af því að ná að breyta grundvallarviðmiðum og afstöðu fólks vegna þess að þetta er stórt verkefni. Þetta er stórt verkefni sem snýst ekki bara um það að ná árangri gegn þeirri umhverfisvá sem steðjar að jörðinni heldur líka um að breyta afstöðu fólks til þess hvernig samfélag mannfólks, hvernig efnahagslífið, svo að við brjótum það bara niður í einföldustu eininguna, þarf að starfa í sátt við náttúruna. Við þekkjum það bara af sögu undanfarinna áratuga að það er allt annað en lítið verkefni.

Rétt að lokum, vegna þess að hæstv. ráðherra nefndi friðartillögu Úkraínu varðandi þá glæpi sem Rússar fremja, nota umhverfisspjöll sem vopn í stríði, þá er það náttúrlega mjög viðeigandi því að Olof Palme viðraði þessa hugmynd fyrst í tengslum við notkun Bandaríkjamanna (Forseti hringir.) á efnavopnum í Víetnamstríðinu, þannig að við erum komin aftur að rótunum. Nú held ég að við þurfum að halda dálítið vel á spöðunum frekar en að bíða eilífra greininga ofan úr ráðuneytum.