Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

framboð á fjarnámi.

634. mál
[19:16]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir. Hún er ötull talsmaður fjarnáms og öflugrar starfsemi háskólanna á landsbyggðinni og það er mikilvægt að þingið búi að slíkum þingmönnum. Eins og ég hef áður lýst þá tel ég mjög mikilvægt að nýta þá þekkingu og reynslu sem aflað var þegar stór hluti af námi í háskólum færðist tímabundið í fjarnám í heimsfaraldri. Þá má minna líka á áherslur í stjórnarsáttmála um aukna netvæðingu náms og aukið aðgengi að háskólanámi um allt land. Það var tekin ákvörðun í fyrra að fara í ákveðið samstarf háskólanna, að ýta undir, eins og gert er í löndunum í kringum okkur, hvata til ákveðinnar menntunar og tækifæra sem kallað er eftir í samfélaginu. Það er bæði í takt við Vísinda- og tækniráð og hvernig þar hefur verið ályktað og hvað við heyrum sjálf á ferðum okkar um landið. Í samtali við fólk, allt frá Snæfellsbæ til Ísafjarðar, Seyðisfjarðar, Vestmannaeyja og víðar, heyrir maður mikið ákall um fjarnám. Með því að búa til ákveðna hvata fyrir háskólana í umhverfi þar sem háskólar eru sjálfstæðir og þurfa að meta það sjálfir hvernig þeir kenna greinar og hvaða greinar fara í farveg fjarnáms þá sáum við margar nýjar leiðir fjarnáms verða til sem auka tækifæri landsbyggðarinnar, t.d. í fyrsta skipti tækninám á Norðurlandi sem er gríðarlegt framfaraskref og hefur verið kallað eftir í fjölda ára. Það verður kennt í fjarnámi og í fyrsta skipti verður því tækninám, fullt tækninám, aðgengilegt fyrir fólk á landsbyggðinni en líka heilsugæsluhjúkrun, þar sem við erum að sjá þörf á landsbyggðinni fyrir heilbrigðisstarfsfólk á ýmsum sviðum, og líka fjölgun fagmenntaðra starfsmanna á leikskólum, íslenskunám og fleira gæti ég nefnt. Síðar á þessu ári er síðan ráðgerður síðari hluti þessa verkefnis og þá má vænta þess að áfram muni ég leggja áherslu á öflugt fjarnám um land allt. Í þingsályktunartillögu, sem er núna í samráðsgátt, hef ég sett fram áherslu á aukin tækifæri fólks af landsbyggðinni til að sækja sér háskólanám þar sem öflugt fjarnám er algjör forsenda fyrir jöfnum tækifærum óháð búsetu.

Að þessu sögðu þá legg ég mikla áherslu á að stefnumótun um fjarnám og fyrirkomulag þess í tilteknum námsgreinum fari fram á vettvangi háskólanna en í samstarfi við staðbundin stjórnvöld, eins og góð reynsla er t.d. af á Vestfjörðum, hjá Háskólasetri Vestfjarða, og hjá Austurbrú á Austurlandi. Auðvitað þarf að virða lögbundið sjálfstæði háskólanna til að ráða skipulagi starfsemi sinnar en stefna stjórnvalda á þessu sviði liggur fyrir. Háskólarnir hafa sýnt í verki vilja sinn til að auka framboð fjarnáms þar sem því verður komið við en með hvatafjármunum tel ég að við getum hreyfst enn þá hraðar. Það hefur verið vinna til lengri tíma að breyta fjármögnunarlíkani háskólanna en það hefur ekki tekist til þessa. Ef við berum okkur saman við lönd í kringum okkur eru þar t.d. innbyggðir hvatar til að vera með nám með stafrænum hætti, enda er kallað eftir því víða um heim en ekki bara á Íslandi.

Við erum að leggja lokahönd á fyrstu breytingar á fjármögnunarlíkaninu sem við ætlum að reyna að keyra fyrir næstu fjárlög sem prufu og að hafa tilbúið fjármögnunarlíkan fyrir fjárlög árið 2025. Þar gæti verið gott að taka umræðu um það hvort við getum haft aukinn hvata. Í dag er enginn munur á því hvernig ríkið greiðir með fjarnámsnemanda eða staðarnemanda og það er galli gagnvart því að það er enginn sérstakur hvati til að bæta við fjarnám. Við erum með tvo háskóla, bæði Háskólann á Akureyri og Bifröst, sem hafa tekið stór skref í fjarnámi, eru orðnir mjög góðir í að sinna mjög fjölbreyttu fjarnámi og eru að taka að sér ný verkefni sem komu í gegnum samstarf háskólanna. Þar erum við einmitt að bregðast við mönnunarvandanum víða, eins og í heilbrigðismálum og leikskólum, í fiskeldi, í netöryggi, í hugverkaiðnaði. Ég nefni líka stóraukið og fjölbreytt íslenskunám sem er samfélögum gríðarlega mikilvægt. Það hefur verið kallað eftir í fjarnámi í íslensku lengi og er það núna að verða að veruleika. Samhliða því er líka verið að setja af stað einstakt samstarf allra háskólanna um sameiginlegt meistaranám til að búa til meiri hagræðingu innan háskólanna gagnvart meistaranámi en ekki síst til að auka gæði þess og sveigjanleika fólks til að púsla saman ólíku námi.

Áskoranirnar eru víða. Ég hef mikinn hug á að gera enn þá betur en við erum aldeilis byrjuð. Við höfum séð mikið gerast að undanförnu. Ég held að fjármögnunarlíkanið gagnvart lengri tíma sýn fyrir háskólana skipti þar höfuðmáli, þar sem tekið er tillit til fjarnáms nemenda, sem ekki var gert þegar það var búið til árið 1999.