Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég hef gert það að reglu hér undanfarið að tala um grunninnviðina og ætla að halda því áfram en koma kannski að því aðeins frá annarri hlið núna. Ég held að mikilvægi grunninnviða hafi aldrei verið eins mikið og núna og að þeir séu grundvöllur þess að við getum vaxið út úr þeim vanda sem er núna. Við þurfum að auka framleiðsluna og tekjurnar og útflutningsverðmætin til þess að mæta þeim efnahagsþrengingum sem eru núna. Því er mikilvægt að grunninnviðirnir séu til staðar. Þess vegna vildi ég koma hér og fagna tillögum frá FÍB um kílómetragjald, af því að samgöngur eru einn af þessum grunninnviðum þar sem tekjur ríkissjóðs hafa verið að dragast saman út af orkuskiptum og sparneytnari ökutækjum. Þarna eru hagsmunasamtökin komin með tillögu, mjög góða og sanngjarna tillögu, um kílómetragjald sem ég held að við ættum að nýta og reyna að innleiða sem hraðast og fyrst til þess að fjármagna þá mikilvægu grunninnviði sem samgöngukerfið er. Innviðaskuldin er orðin mikil. Sama hvar við lítum þá mun samgöngukerfið verða nauðsynlegt í atvinnusköpun og aukinni framlegð og framleiðslu á útflutningsverðmætum þjóðarinnar, hvort sem það er í ferðaþjónustu, laxeldi, sjávarútvegi, landbúnaði eða hvar sem við ætlum — og með sameiningu sveitarfélaga til þess að hagræða í opinberum rekstri og margt fleira. Þannig að ég vil fagna þessu. Þarna þurfum við að taka ákvarðanir hratt og bregðast hratt við til að takast á við þann vanda sem er í samfélaginu í dag.