Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér breytta röðun á köflum og ákvæðum laga um almannatryggingar. Endurröðun á ákvæðum laganna felur í sér að sumum ákvæðunum er skipt upp í nokkur smærri ákvæði, kaflar eru færðir til, nýjum köflum er bætt við og öðrum er skipt upp. Þannig verði t.d. ákvæði um ellilífeyri í einum kafla og ákvæði um örorkulífeyri og tengdar greiðslur í öðrum kafla. Þá er leitast við því að samræma hugtakanotkun innan laganna og uppfæra hana til samræmis við almenna málnotkun. Um er að ræða nokkuð umfangsmiklar breytingar á framsetningu laganna með það að markmiði að gera lögin aðgengilegri, einfaldari og skýrari, bæði fyrir þá einstaklinga sem byggja rétt sinn á lögunum og fyrir þau stjórnvöld sem túlka og framkvæma lögin.

Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar efnislegar breytingar á bæði lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þær breytingar varða einna helst réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjenda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingatímabila og ætlaðra tímabila til framtíðar. Þá eru lagðar til breytingar hvað varðar skilyrði fyrir rétti til örorkulífeyris og lagðar til ívilnandi sérreglur fyrir þá sem eru metnir til 75% örorku frá 18 ára aldri, en einnig fyrir þá einstaklinga sem hafa áunnið sér réttindi samkvæmt lögunum en hafa búið erlendis tímabundið.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti nefndarinnar árétta sérstaklega eftirfarandi atriði.

Fyrir nefndinni var rætt um að gildandi lög um almannatryggingar eru flókin og ógagnsæ og er hætta á rangri túlkun laganna og framkvæmd þeirra ef þau eru óskýr. Hafa umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun bent á óskýr ákvæði laganna líkt og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins. Nefndin telur þær breytingar sem frumvarpið felur í sér varðandi endurröðun á ákvæðum og köflum laganna mikilvægar og leggur áherslu á að lög séu ávallt skýr og aðgengileg þeim sem byggja rétt sinn á lögunum. Við meðferð málsins í nefndinni var einnig fjallað um áhrif milliríkjasamninga á lög um almannatryggingar og meðferð mála fyrir stjórnvöldum. Bent var á að réttindi einstaklinga samkvæmt lögum um almannatryggingar væru óljós, m.a. vegna áhrifa milliríkjasamninga, en fram komu sjónarmið þess efnis að alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins ættu ekki að skerða réttindi einstaklinga samkvæmt lögunum. Meiri hlutinn bendir á að markmið milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga er einkum að tryggja að áunnin réttindi tapist ekki við flutning milli samningsríkjanna. Í frumvarpinu er skerpt á tilvísunum til ákvæða um milliríkjasamninga í lögum um almannatryggingar þegar við á og þannig undirstrikað að ákvæði slíkra samninga geta haft áhrif á réttindi einstaklinga. Eru þær breytingar sem lagðar til í frumvarpinu liður í því að samræma framkvæmd laganna betur að þeim skuldbindingum sem felast í gagnkvæmum milliríkjasamningum sem Ísland hefur gert.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem fjallað er um í nefndaráliti. Það er þó ástæða til þess að fara stuttlega yfir þær hér til skýringarauka.

Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði og lagt er til að lögin taki þegar gildi. Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2023. Þar sem það tímamark er liðið er þessi breytingartillaga bæði nauðsynleg og rökrétt. Þá er lögð til breyting á orðalagi a-liðar 5. gr. frumvarpsins sem er ætlað að skýra betur heimildir úrskurðarnefndar velferðarmála til að taka mál til úrskurðar.

Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingu á fjárhæðum í frumvarpi til samræmis við þær hækkanir sem gerðar voru með reglugerð um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2023, nr. 1438/2022.

Auk þess leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. d-liðar 12. gr. frumvarpsins, en ákvæðið kveður á um að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem einstaklingur á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil. Í því skyni að auka skýrleika ákvæðisins leggur nefndin til að reglan gildi um bætur sömu tegundar enda má teljast óeðlilegt að örorkulífeyrir skerðist t.d. vegna barnalífeyrisgreiðslna erlendis frá.

Þá er lagt til að ákvæði 12. gr. laga um félagslega aðstoð falli brott. Ákvæði þetta fjallar um kostnað vegna þjónustu dagvistar samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999, en þar sem kveðið er á um greiðsluþátttöku þeirra sem njóta dagdvalar í 19. gr. laga um málefni aldraðra er ekki lengur talin þörf á ákvæðinu.

Loks leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í nefndaráliti.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn: Jódís Skúladóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Óli Björn Kárason.

Herra forseti. Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi er að hluta til komið til móts við athugasemdir í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í ágúst 2020 þar sem bent var á að tíðar breytingar almannatryggingalöggjafarinnar, viðbætur og innri tilvísanir í henni hafi leitt til ógagnsæis þeirra og haft neikvæð áhrif á framkvæmd laganna. Í skýrslunni er bent á að skýr löggjöf auki til muna gagnsæi, leiði til réttari útreikninga og afgreiðslu réttinda og greiðslna úr kerfinu. Þær breytingar sem lagðar eru til á núverandi lagaumhverfi eru því liður í þeirri einföldun og varðar réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjanda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingatímabila, eins og fram hefur komið. Breytingarnar nú eru liður í stærri endurskoðun félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna örorku- og ellilífeyriskerfisins og eru, ásamt breytingum um sérstakt frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar og hins vegar framlengingar á greiðslutíminn tímabili endurhæfingarlífeyris, mikilvægir hlekkir í þeirri endurskoðun, en frekari breytingar verða innleiddar í áföngum á komandi mánuðum og árum.

Kveðið er á um endurskoðun málaflokksins í ríkisstjórnarsáttmála. Hér er því um að ræða mikilvægt skref í samræmi við þær áherslur sem þar birtast. Endurskoðun örorku- og ellilífeyriskerfisins er löngu tímabær og tel ég þetta mál í dag vera mikilvægan þátt í bættum lífskjörum og auknum lífsgæðum þeirra sem byggja réttindi sín á þessum lögum, fólks með mismikla starfsgetu og sem nýtur örorkulífeyrisgreiðslna. Endurskoðun kerfisins er fyrir löngu tímabær og fagnar framsögumaður því að sú vinna sé komin af stað. Með frumvarpi þessu eru gerðar mikilvægar breytingar til batnaðar á kerfinu.

Að endingu vil ég þakka umsagnaraðilum og gestum fyrir góðar ábendingar og nefndarmönnum öllum fyrir gott samstarf.