Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

hungursneyðin í Úkraínu.

581. mál
[17:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég fagna því eindregið að við séum hér á Alþingi að samþykkja fordæmingu á þeim skelfilegu atburðum sem áttu sér stað í Úkraínu fyrir 90 árum síðan. Það er sannur heiður að vera hluti af þessari þingsályktunartillögu og ánægjulegt að hún fékk að fara í gegnum þingið hratt og auðveldlega þrátt fyrir að um þingmannstillögu væri að ræða.

Hér er auðvitað um táknræna fordæmingu að ræða sem forverar okkar á hinu háa Alþingi hefðu fyrir löngu átt að framkvæma. Persónulega vil ég sjá okkur ganga lengra, enn lengra. Ég tel að við hér á Alþingi eigum að fylgja fordæmi þinganna í Kanada, Póllandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen og á Írlandi og fordæma núverandi innrás Rússa í Úkraínu sem stríðsglæp og þjóðarmorð. Við eigum ekki að þurfa að bíða í 90 ár. Það er einnig von mín að afgreiðsla þessarar fordæmingar leiði til þess að aðrar fordæmingar, eins og þær sem lagðar hafa verið fram á Alþingi um viðurkenningu á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum og viðurkenningu á þjóðarmorði Tyrkja á Armenum hljóti náð Alþingis.

Einnig tel ég að við ættum sem þjóð sem berst fyrir mannréttindum að hafa þor og dugnað til þess að fordæma þjóðarmorð sem eru enn í gangi, t.d. þjóðarmorð Mjanmar á Róhingja-múslimum og Kínverja á Úígúr-múslimum. Þjóðarmorð eiga aldrei að fá að viðgangast. Við ræddum það hér í gær undir skýrslu utanríkisráðherra hvað rödd lítillar þjóðar getur haft sterk áhrif. Við þorum að gera þetta í dag vegna þessara atburða sem gerðust fyrir 90 árum. Höldum áfram að færa okkur fram í nútíðina og höfum það þor og þann dug sem Alþingi og sem þjóð að standa ávallt gegn þjóðarmorðum.