Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Um a-lið 12. gr. Hér er ákaflega mikilvæg breytingartillaga á ferðinni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það megi víkja frá lögunum og taka tillit til milliríkjasamninga þegar greiðslur til lífeyristaka eru metnar. Í umræðum innan nefndarinnar stóð upp úr meiri hluta nefndarinnar að þetta væri ívilnandi og ætti að vera til bóta. Þá vildum við ekki skilja greinina eftir til túlkunar fyrir Tryggingastofnun heldur vildum við tala skýrt og segja að ákvæðum milliríkjasamninga verði ekki beitt leiði það til lakari réttar en annars nyti við samkvæmt lögum.

Þegar við erum að setja lög er betra að segja nákvæmlega hvað það er sem við eigum við og skilja ekki slíkt hagsmunamál eftir til túlkunar fyrir framkvæmdarvaldið og stofnanirnar. (Forseti hringir.) Það veldur mér vonbrigðum ef meiri hlutinn meinar það í alvöru að þarna eigi að vera ívilnandi ákvæði (Forseti hringir.) hvers vegna þau eru á móti því að segja það hreint út í ákvæðinu.