Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[13:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tel líka að tækifæri til að fá að starfa sé hluti af virkni. En jú, þetta sem ég nefndi í sambandi við íþróttirnar, það hefur komið fram áður að það hefur sýnt alveg gríðarlega miklar framfarir hjá eldra fólki sem hefur í rauninni nánast verið orðið kyrrsetufólk en hefur farið í íþróttirnar og annað slíkt. Ég man nú ekki alveg hvað hann heitir sá góði maður sem hefur einmitt verið að sýna fram á hversu ofboðslega mikil breyting verður og mikil lífsgæðaaukning við það að hreyfa sig og fá að vera félagslega með sínum jafnöldrum.

En þetta er íþróttafélagið Fylkir, þessar ungu konur voru með aðstöðu og fengu allan stuðning þaðan, fengu að vera með þessar íþróttir sínar; jóga, söngur, gleði. Þær voru að bjóða upp á kaffi og kleinur og annað slíkt og það var allt án endurgjalds fyrir þetta fullorðna fólk. Margir hverjir eru í rauninni mjög illa staddir fjárhagslega ásamt því að vera einangraðir, orðnar ekkjur, orðnir ekklar eða hafa jafnvel lítið sem ekkert bakland. Þetta, eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á, fyndist mér — og ég gleðst yfir því að heyra að hann sé einmitt að tala um að líta til íþróttafélaga og líta til þess, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, að hann sé að hugsa um að efla þannig virkni og félagsleg samskipti eldra fólks.

Ég myndi bara í lokin spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra mun taka utan um, að styrkja og styðja við það að hægt sé að nýta einmitt þessa stöðu og þá endurgjaldslaust fyrir eldra fólk þannig að engum verði mismunað í því að geta lifað hér góðu lífi þannig að á Íslandi verði raunverulega ekki bara gott að eldast heldur alveg yndisleg að eldast.