Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[14:04]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir orðið og það sem hv. þingmaður sagði hér á undan mér, þ.e. um búsetuna. Ég held að þær séu mjög mikilvægar þegar við hugsum um búsetu eldra fólks, sem og allra annarra, hinar frægu ljóðlínur skáldsins: Hver vegur að heiman er vegur heim.

Þú skiptir um búsetu því að þú ert að fara frá heimili þínu á nýtt heimili þitt. Ég held að það sé grundvallarhugsun þegar við hugsum um búsetuskipti fólks, eldra fólks sem og annarra, að þau eru alltaf að fara á heimilið sitt. Við þurfum að líta á stöðu hvers og eins þannig að hann búi á staðnum sem hann er á, ef hann er þar lengur en bara vegna þess að hann er á sjúkrahúsi. En ef hann hefur flutt heimili sitt þá er það heimili hans. Þess vegna hefur þessi ágæta ljóðlína fengið nýja merkingu í mínum eyrum: Hver vegur að heiman vegur heim.

Ég er þó mun eldri en hv. þingmaður sem talaði á undan mér og er mjög spenntur að horfa líka á það sem hér eru fyrirheit um í þessari ágætu aðgerðaáætlun, að lögð verði áhersla á aðgerðir sem styðji við búsetu fólks á eigin heimili. Þetta er liður E í áætluninni, með leyfi forseta:

„… og að húsnæði geti breyst í takti við breyttar aðstæður fólks. Einnig verði lögð áhersla á að nýta þau fjögur ár sem aðgerðaáætlun nær yfir til að prófa tillögur sem gætu komið fram að nýjum útfærslum á þjónustu sem styðji við sjálfstæða búsetu þrátt fyrir umfangsmiklar þjónustuþarfir.“

Ég vil að þessi leið verði vörðuð þeirri hugsun að fólk sé á heimili sínu.