Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

forseti COP28.

698. mál
[17:55]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og þakka hv. þingmanni fyrir að draga athygli að þessu máli á þessum vettvangi og hvet hann og aðra þingmenn til að gera meira af því. Ég skil hvaðan hv. þingmaður er að koma, en spurt er hvort Ísland hyggist beita sér gegn því að Sultan Al Jaber, ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna. verði forseti 28. aðildarríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, eða COP28 eins og það er gjarnan kallað. Stutta svarið er nei. Meginástæðan fyrir því er einföld. Þetta er virðingarstaða til eins árs í senn þar sem fylgt er ákveðnum reglum Sameinuðu þjóðanna og loftslagssamningsins. Formennska á COP-fundum er ákveðin hverju sinni af einum af fimm ríkjahópum Sameinuðu þjóðanna. Ríkjahópar skiptast á formennsku sem fer yfirleitt saman við gestgjafahlutverk. Á þessu ári er það á könnu hóps ríkja í Asíu og Kyrrahafi að bjóða fram fundarstað og formennsku. Þarna hafa 50 ríki komið sér saman um að fundurinn verði að þessu sinni haldinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem bjóða þá um leið fram formann hans. Það lá fyrir með niðurstöðu ríkjahópsins að viðkomandi ráðherra yrði forseti COP28. Það er ekki beinlínis kosið um þetta embætti og Ísland eða önnur ríki geta ekki fengið annan til. Það er auðvitað hlutverk formanns COP og metnaðarmál fyrir gestgjafa hverju sinni að tryggja gott þing með góðri niðurstöðu og ég efast ekki um að komandi formaður reyni þar sitt besta. Þar hafa þó úrslitaáhrif ríkin sjálf en ekki formaðurinn því að niðurstaða þarf að nást með samhljómi aðildarríkja.

Það mætti auðvitað hugsa sér að Ísland bæði gestgjafaríkið að draga þennan ráðherra til baka í formannsstól og óska eftir öðrum ráðherra. Það væri líklega einsdæmi og myndi fyrst og fremst vekja spurn og furðu. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru olíuframleiðsluríki eins og fjölmörg önnur á þessum slóðum og á heimsvísu. Þau hafa þó gert meira en mörg önnur ríki til að undirbúa hrein orkuskipti og framtíð sem byggir á öðru en jarðefnaeldsneyti og þau hýsa m.a. skrifstofur alþjóðasamtaka um endurnýjanlega orku, IRENA, sem Ísland og flest ríki eru aðilar að.

Það er þó alveg skýrt tekið fram, virðulegi forseti, að ég er ekkert að verja ástandið í þessum ríkjum frekar en öðrum. Ég hef svo sem beitt mér í mínum fyrri störfum fyrir ýmsu sem tengist þeim ríkjum sem hv. þingmaður vísaði til. En það er hins vegar mikilvægt að fá olíuframleiðsluríki að borðinu í loftslagsmálum eins og önnur. Það er vissulega auðvelt fyrir okkur Íslendinga að setja okkur á háan hest þegar kemur að hreinum orkuskiptum þar sem við erum með einna hæst hlutfall endurnýjanlegrar orku í okkar orkubúskap og nær eina ríkið sem notar eingöngu endurnýjanlegar orkulindir til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. En við getum þó gert enn betur, bæði í því að draga úr okkar losun og við að aðstoða aðra í loftslagsverkefnum og hreinum orkuskiptum. Efnahagskerfi heimsins er enn að langmestu leyti knúið af jarðefnaeldsneyti og við þurfum að eiga hreinskilið samtal um hvernig við getum breytt því. Það er vissulega misjafn sauður í mörgu fé á COP-þingum loftslagssamningsins en við náum skammt ef þau eiga bara að vera keppni í dyggðaskreytingu þar sem rík lönd á borð við Ísland sem nota mikla orku setja ofan í við önnur lönd sem okkur finnst standa lakar. Það, virðulegi forseti, er kjarni máls, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það verkefni sem hv. þingmaður hefur dregið athyglina að, loftslagsverkefnið, og ég þakka hv. þingmanni fyrir að gera það, er þess eðlis að við þurfum að fá alla að borðinu. Það er auðvitað mikil þraut. Það að eiga samtal við ríki þýðir ekki að íslensk ríkisstjórn eða íslensk stjórnvöld séu með neinum hætti að skrifa undir allt það sem þau ríki gera, hvort sem það er á vettvangi loftslagsmála eða annarra mála, ég tala nú ekki um mannréttindamála, það kemur svona upp í hugann, virðulegi forseti, þegar við ræðum um ýmis þessi lönd. Þannig að, virðulegi forseti, ég skil spurningar hv. þingmanns og þau sjónarmið sem þar liggja að baki. Ég vona að mér hafi tekist að svara þeim svo gagn sé að.