Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[14:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég bað um það í atkvæðagreiðslu í 2. umr. að senda málið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. Við ræddum það aðeins áður en atkvæðagreiðslan kom til kasta að það var kannski verið að fjalla um atriði sem var aðeins utan þess sem nákvæmlega er verið að breyta í frumvarpinu, en er samt atriði sem þarf að huga að. Velferðarnefnd hefur núna, ásamt fjárlaganefnd, verið að vinna að því að greina ákveðin vandkvæði í lögum um almannatryggingar sem varða frítekjumark ellilífeyris. Ég lenti í smá vandamálum og gat ekki tekið þátt í 2. umr. svo ég minnist aðeins á þetta núna. Staðan er sem sagt sú að það er frítekjumark fyrir ellilífeyrisþega upp á 2,4 milljónir á ári fyrir atvinnutekjur. Þetta er rosalega skýrt í 23. gr. laganna, sem færist held ég yfir í 22. gr. núna með þessum breytingum en alla vega er engu öðru breytt hvað þetta varðar. Vandamálið er það, að samkvæmt skilgreiningu í núverandi lögum og í þeim breytingum sem hér eru lagðar til þá teljast greiðslur úr lífeyrissjóði vera atvinnutekjur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Það er dálítið erfitt að átta sig á því hvert þetta fer, en Tryggingastofnun framkvæmir frítekjumarkið ekki á þann hátt, þ.e. ellilífeyrisþegar fá ekki lífeyrisgreiðslurnar sínar taldar sem atvinnutekjur og verða því af þessari 2,1 milljón sem munar á almenna og sérstaka frítekjumarkinu á árinu. Þannig eru lögin í dag og við erum að reyna að fá svör frá ráðuneyti og öðrum aðilum við því hvernig á því stendur að lögin, eins og þau standa, eru ekki eins og framkvæmdin er síðan í reynd. Hvar er heimildin í lögum til að segja: Nei, lífeyrissjóðsgreiðslur teljast í þessu tilviki ekki vera atvinnutekjur? Við finnum það hvergi í lögunum og þar af leiðandi ætti ekki að framkvæma lögin á þann hátt að taka lífeyrissjóðsgreiðslur frá atvinnutekjum. Hér er um umtalsverðar upphæðir að ræða á ári fyrir hvern og einn ellilífeyrisþega. Ég geri mér grein fyrir því að ætlunin með lögunum var sú að lífeyrissjóðsgreiðslur myndu ekki teljast sem atvinnutekjur, en lagatextinn sjálfur segir annað. Það er lagatextinn sem skiptir máli þegar allt kemur til alls, ekki greinargerðin, ekki hvað ráðuneytið eða Tryggingastofnun hélt að lögin ættu að vera, heldur lagatextinn. Hann er núna, eins og er, á þá leið að lífeyrissjóðsgreiðslur eru atvinnutekjur og eiga þar af leiðandi að falla undir frítekjumark ellilífeyrisþega upp á 2,4 milljónir á ári.