Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Með notendastýrða aðgengið að sólarhringsþjónustunni og öll þessi verkefni sem eru hérna þá ætla ég nú ekki að segja að það sé ekki neitt, ég fagna því mjög að þessi atriði séu komin fram, en í alvörunni er þetta auðveldasti hlutinn af þessu verkefni, að kalla fram hugmyndirnar um það hvað er hægt að gera til að betrumbæta aðstæður með því að spyrja fólkið sem er að vinna í þessu, af því að það sér hvar skorturinn er, og koma því svo inn í svona þingsályktunartillögu. Erfiði hlutinn verður alltaf fjármögnunin og framkvæmdin. Það hljóta að vera svörin við því sem við þurfum að krefjast og fá nánari svör um í nefndinni og náttúrlega í fjárlaganefnd líka um fjármálaáætlun. Frábært, þetta var sett á blað. Hvað svo? Er þetta í alvörunni eitthvað sem mun raungerast út frá einhverjum sanngjörnum tímaramma, einhvern tímann bara á okkar ævi? Við erum að tala hérna um árin til 2027 og eins og ég sagði áðan þá kvartaði ég pínulítið yfir því að það vantaði tímasetningar á þessar aðgerðir til þess að við gætum gengið aðeins á eftir stjórnvöldum. Hvernig er þetta ganga? Nú átti þetta að vera byrjað. Ef það vantar þá er svo erfitt t.d. í fjármálaáætlunarvinnunni að leita að þessu. Við vorum með tillögu til þingsályktunar um geðheilbrigðismál, hérna átti að byrja 2024, ég ætla að skoða það núna í fjármálaáætluninni — bíddu, þetta vantar. Af hverju vantar þetta? Svoleiðis viljum við reyna að vinna með svona áætlun og án slíkra upplýsinga er það ekkert rosalega gagnlegt, því miður.