Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að bregðast vel við þessum hugmyndum sem ég setti hér fram og ég efast ekki um að velferðarnefnd mun fara vel yfir þetta og kalla til samráðs fólk sem best þekkir til. Ég held einmitt að þetta sé svolítið stóra verkefnið og hv. þingmaður kom inn á það að í þessum efnum getum við ekki skýlt okkur á bak við það að það vanti fólk, að það séu bara engir menntaðir sálfræðingar hérna. Það þarf að ráða fólk til starfa og það þarf að leggja fram fé og auglýsa störfin og það þarf að gera það eftirsóknarvert fyrir sálfræðinga að starfa á heilsugæslustöðvum. Þar skiptir starfsumhverfið auðvitað mjög miklu máli eins og við fórum yfir áðan, ég og hæstv. heilbrigðisráðherra, í samtali um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil bara hvetja bæði hæstv. ráðherra og velferðarnefnd til dáða þegar kemur að þessum verkefnum og þá líka að ganga eftir því að nauðsynlegt fjármagn sé veitt til þessarar þjónustu. Það gengur ekki að það komi alltaf inn einhver tímabundin fjárframlög. Það þarf að vera ákveðin festa og fyrirsjáanleiki í þessu einmitt til þess að sálfræðingar kjósi að starfa við þessa mikilvægu þjónustu.