Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Seint hefði maður trúað því að maður ætti eftir að standa hér á þessum degi til að lýsa yfir vantrausti á hæstv. ráðherra og í þessu tilviki Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Málið sem um ræðir snýst um þingskapalög, það snýst ekki um neitt annað. Það snýst um þá staðreynd að hæstv. ráðherra, Jón Gunnarsson, hefur ítrekað lýst því yfir að það hafi verið hans ákvörðun og á hans ábyrgð að koma í veg fyrir afhendingu gagna frá stjórnvaldi þvert á það sem þingskapalög kveða á um.

Það er algjört grundvallaratriði hér að stjórnvaldi ber skylda til að skila gögnum til fastanefnda Alþingis innan gefins tímafrests svo að þingið geti sinnt hlutverki sínu. Það er grundvallaratriði að Alþingi, löggjafinn, geti af alúð sinnt þeim verkum sem því er ætlað að vinna án þess að framkvæmdarvaldið stígi inn í og hefti vinnu þess eins og hæstv. ráðherra hefur augljóslega gert. Það gekk meira að segja svo langt að þegar kom að því að veita ríkisborgararétt í desember 2021 var það ómögulegt vegna þess að þingið hafði ekki fengið þau gögn sem það óskaði eftir.

Hæstv. ráðherra gengur hér fram með geðþóttaákvörðun og ákveður að hann sé hafinn yfir lög og reglur. Hér er enginn hafinn yfir lög og reglur, hvorki hæstv. dómsmálaráðherra né nokkurt annað okkar hér. En það að ætla að stíga svona freklega inn í störf löggjafans, hindra okkur í starfi, koma í veg fyrir að við fáum þau gögn sem lögbundið er skv. 51. gr. þingskapalaga — það er algerlega skýrt að ráðherrann hefur ekkert umboð og enga heimild til að búa til sérreglur um sjálfan sig og sinn geðþótta. Hann á vinsamlega að fylgja lögum eins og aðrir. Ef honum líst ekki á þessa löggjöf þá á hann að breyta henni en ekki brjóta hana.