Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

lögheimili og aðsetur.

895. mál
[16:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þótt ég hafi ekki skilið úr orðum hans svar við spurningunni um hvað standi raunverulega í vegi fyrir því að fólk geti einfaldlega dulið lögheimili sitt ef það sjálft telur sig í hættu.

Ég ætla að leyfa mér að taka spurninguna skrefinu lengra. Nú er skráning lögheimilis í þar til gerða þjóðskrá alls ekki eitthvað sem tíðkast í öllum ríkjum. Ég held að það tíðkist á Norðurlöndunum, en nú hef ég búið bæði á Ítalíu, í Belgíu og í Frakklandi og í engu þessara ríkja er þjóðskrá þar sem hægt er að fletta upp heimilisfangi fólks. Hæstv. ráðherra nefndi að það eru sannarlega ákveðin réttindi sem fylgja heimilisfangi og ég held að það eigi við í öllum ríkjum. Þá þurfa einstaklingar í rauninni að leggja fram, eins og það er alla vega kallað í Frakklandi, sönnun á heimilisfangi. Þar í landi er það nú bara rafmagnsreikningur, mjög ólíkt því sem hér gerist, en hér gæti það t.d. verið vottorð frá Þjóðskrá um það hvar þú býrð, sem viðkomandi hlýtur að vera viljugur til að leggja fram til þess að fá þau réttindi sem honum ber eða veita einhvers konar heimild fyrir viðkomandi stjórnvald eða annað til að afla þeirra upplýsinga. Ég tek því spurninguna skrefinu lengra og spyr hæstv. ráðherra hvers vegna hann telji ástæðu til þess að gera þetta að undantekningu og hvers vegna það sé í raun ekki bara meginregla að heimilisfang fólks sé dulið í skrám stjórnvalda og að einstaklingar hafi sjálfir algjört forræði yfir því hverjir fá þær upplýsingar og við hvaða aðstæður.