Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Stjórnmálahefð okkar á Íslandi er hreint og tært meirihlutaræði. Flokkar mynda meirihlutasamstarf, teikna upp leikskipulagið og svo hefjast leikar. Sum kerfi ganga upp önnur ekki en samstarfið heldur yfirleitt. Flokkar halda saman í blíðu og stríðu. Flokkar utan samstarfsins eru andstæðingurinn, sama hvað, það er ekkert gefið eftir. Það eru auðvitað kostir við þá hefð að líma sig saman í meirihlutasamstarfi og fara svo alltaf sínu fram í ljósi atkvæðamagns, takast á innbyrðis en koma fram sem ein heild. Liðsheildin er mikilvægasta eignin, það er mikilvægast að passa upp á hana af því að þar liggur valdið.

En gallarnir eru svo sannarlega líka til staðar. Leikskipulagið gerir það að verkum að flokkar sem eru að einhverju leyti ólíkir með mismunandi áherslur gefa eftir í tilteknum málum. Það þarf jú að passa upp á liðsheildina og áferðina út á við. Sumir gefa meira eftir en aðrir eftir efnum og ástæðum. Við þekkjum þetta. Samstarf felur iðulega í sér málamiðlanir og það á við um pólitík eins og annað. Það þarf oft að kyngja einhverju óþægilegu í þágu samstarfsins, jafnvel brjóta prinsipp í þágu valdsins og aldrei verður teygjanlegt hugtak. Svona getur þetta verið erfitt, jafnvel niðurlægjandi á köflum, í meirihlutasamstarfi. Erfiðar ákvarðanir velta á pólitísku mati á stöðunni, um hvað er best fyrir flokkana sem mynda samstarfið eða hvað er minnst vont. Spurningin er: Hvað kostar valdið og hvenær, ef einhvern tímann, er verðmiðinn orðinn of hár?

Þetta er pólitík, herra forseti. En það sem við greiðum atkvæði um í dag fellur utan við hefðbundið flokkspólitískt tafl, fellur utan við samstöðu um vald af því að það verður að gera það. Dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, hefur ítrekað lýst því yfir að það hafi verið hans ákvörðun og hans ábyrgð að koma í veg fyrir afhendingu gagna frá stjórnvaldi þvert á það sem þingskapalög kveða á um. Þau kveða á um að stjórnvaldi beri að taka saman upplýsingar og skila þeim til fastanefnda Alþingis innan gefins tímafrests svo að þingið geti sinnt hlutverki sínu. Með þessu braut dómsmálaráðherra gegn þingskapalögum líkt og staðfest er í nýju minnisblaði skrifstofu Alþingis.

Dómsmálaráðherra braut lög sem ætlað er að tryggja að þingið ráði ferð í störfum sínum, braut lög sem ætlað er að tryggja að framkvæmdarvaldið ráði ekki för löggjafarvaldsins. Þetta er algjört grundvallaratriði. Alþingi Íslendinga er hér að taka afstöðu til þess nú hvort þingið sætti sig við að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem kemur í veg fyrir að Alþingi geti rækt skyldur sínar og sett lög, sitji áfram í skjóli sama Alþingis. Um það snýst málið. Ekkert annað. Ætlar meiri hluti Alþingis að verja ráðherra sem brýtur lög sem trufla gagngert til að hindra störf Alþingis og treysta í kjölfarið á meirihlutaræðið sér til varnar í krafti valds, í skjóli valds? Um þetta greiðum við atkvæði í dag og það er óhugsandi að láta flokkshollustu ganga lengra en virðingu fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins. Það getur bara ekki verið sannfæring einstakra þingmanna að gera svona lítið úr störfum okkar hér og gera svona lítið úr Alþingi Íslendinga.