Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:49]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma hér inn með landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Það er vel við hæfi á þessum fallega degi að á sama tíma og við ræðum um landbúnaðarstefnu hér á hinu háa Alþingi sé Búnaðarþing í gangi hér í borg. Mér finnst það vera viss tímamót að við séum loksins komin á þann stað að fara að ræða landbúnaðarstefnu. Málið er okkur hv. þm. Haraldi Benediktssyni, sem talaði hér á undan mér, svolítið skylt þar sem báðir erum við bændur og alþingismenn.

Þegar maður les í gegnum stefnuna þá bara fagna ég eiginlega öllu sem þar fram kemur, ég verð að segja það, því að það er farið vel yfir landbúnaðinn í heild sinni og það er bent á ýmis tækifæri. Að sjálfsögðu er ekki farið, eins og maður segir, í punkta og kommur, enda er það ekki hægt þegar við erum að fjalla um landbúnaðarstefnu sem tekur í sjálfu sér til allrar þeirrar framleiðslu sem fer fram hér á landi. Við vorum við setningu Búnaðarþings í morgun, nokkrir hv. þingmenn ásamt hæstv. matvælaráðherra, og þar kom t.d. fram að landeldisbændur eru að verða hluti af Bændasamtökum Íslands sem er vissulega mikið ánægjuefni.

Það er alltaf þannig þegar við tökum umræðu um svona stefnur að sitt sýnist hverjum. Aftur á móti finnst mér umræðan hafa kjarnast svolítið í umræðu hér rétt áðan sem sneri að afkomu bænda. Ég ætla að dvelja aðeins við hana. Vissulega hafa verið ákveðnar brekkur, við getum bara sagt það, á leiðinni og það er í sjálfu sér ekkert nýtt að við séum að fjalla um afkomu matvælaframleiðenda í heild sinni. Og hvers vegna er það? Ég hef ekki svarið á reiðum höndum og ég held að í sjálfu sér hafi enginn það. Við erum að sjá þróun sem hefur átt sér stað erlendis, þ.e. að það er ákveðin samþjöppun og menn eru að leita hagræðingar. Landbúnaður hefur þróast á Íslandi og kemur til með að þróast. Það eru ekkert svo mörg ár síðan fjölskyldur framfleyttu sér á einhverjum 150 kindum og 20 kúm. Nú er staðan bara allt önnur og það er vegna þess að samfélagið sem við búum í hefur breyst og ákveðnar atvinnugreinar innan matvælaframleiðslunnar hafa fylgt þróun. Ég get tekið sem dæmi alifugla, svín, eggjaframleiðslu og ég get líka nefnt mjólkurframleiðsluna. Síðan getum við tekið greinar eins og sauðfjárræktina og nautakjötsframleiðsluna sem ég ætla bara að leyfa mér að segja að hafi setið eftir þrátt fyrir að þær hafi þróast mjög mikið. En við eigum eftir að stíga þar ákveðin skref. Það er ekki nóg að starfsumhverfi greinarinnar í heild sinni, það sem stendur svona á jaðrinum við hana en er ekki greinin sjálf, sé að þróast heldur þyrfti greinin sjálf líka að þróast í samræmi við nútímann. Það er búið að vera töluvert í umfjöllun hér, aðallega í fjölmiðlum, sem snýr t.d. að lausagöngu búfjár. Sitt sýnist hverjum um það og ætla ég svo sem ekki að blanda mér beint í þá umræðu. Aftur á móti fer það fram á vegum sveitarfélaga hvernig menn haga þeim leikreglum í hverju og einu sveitarfélagi fyrir sig. Aftur á móti finnst mér það líka kalla á ákveðna naflaskoðun í þeirri framleiðslu sem er.

Í matvælastefnu, í lið 2.6 í greinargerð, er fjallað um alþjóðleg markaðsmál. Þetta hefur verið mitt áhugasvið töluvert lengi og snýr að starfsskilyrðum og því hvernig við getum hagrætt innan afurðageirans og hvernig við sjáum þetta þróast annars staðar. Ef við horfum bara á nágrannalönd okkar þá hafa menn farið þá leið, eins og við þekkjum hér í mjólkuriðnaði, að menn hafa farið í að leyfa ákveðna samþjöppun og samvinnu. Ráðherra, að mér skilst, er á leiðinni með slíkt mál í haust, kemur með það í haust, og verður bara spennandi verkefni að takast á við það.

Það sem ég vildi koma inn á hérna líka er að þegar ég tala um að þessar atvinnugreinar þurfi að þróast þá er það ekki lögmál að menn fari bara í göngur í september og síðan sé bara sláturtíð á sauðfé í einhverjar átta vikur í september og október. Við sjáum það að tímarnir hafa breyst og mennirnir með og við þurfum þá líka að breyta því sem að þessu kemur. Ég get alveg séð það fyrir mér og það er hægt að gera það annars staðar í heiminum þar sem menn eru með miklu jafnari og betri dreifingu á því hvenær menn eru að afsetja sína vöru. Það gæti þá líka haldist í hendur við það að menn geti þá unnið saman upp að einhverju vissu marki í því sem snýr að afurðageiranum. Allt þetta þarf að taka mið af þeirri þróun og þeim breytingum á mörkuðum sem við lifum í.

Þegar við komum að nýliðun og því hvernig við fáum aðila til að taka við af þeim eldri þá er ég í sjálfu sér alveg sammála því sem fram fór áðan í orðaskiptum hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar og Haralds Benediktssonar. Við þurfum að horfa mun dýpra inn í það hvernig við getum framkallað ættliðaskipti. Nýliðunarstuðningur sem slíkur, eins og er í búvörusamningi, hjálpar eitthvað til en þetta kemur síðan alltaf að því að við þurfum að horfa til þess að við erum hérna með alveg ofboðslega mikla fjárfestingu. Við erum að fjárfesta með land og við verðum, held ég, að fara að horfa á það þannig að land sé ákveðinn lífeyrissjóður. Við getum bara horft á það þannig. Þarf matvælaframleiðslan alltaf að vera að borga af þessum lífeyrissjóði við hver ættliðaskipti? Ég tel að svo þurfi ekki að vera. Ég myndi telja skynsamlegra að það yrði bara borgað hóflegt gjald við þessi ættliðaskipti og að það kæmu þá t.d. einhverjar lánastofnanir á vegum hins opinbera sem myndu hjálpa við að koma nýliðunum áfram. Land kemur aldrei til með að falla í verði, það kemur alltaf til með standa alla vega í stað, það lækkar ekki því að það verður alltaf eftirspurn eftir landi í hinum breytta heimi sem við búum í af því að við þurfum alltaf land til að framleiða meiri mat í dag en við framleiddum í gær. Það er markmiðið.

Mér finnst þessi landbúnaðarstefna — nú verður hjá mér eins og hjá fleiri mönnum að þetta brennur svo á manni að tíminn hverfur náttúrlega — sem ráðherra er að leggja hér fram fyrir okkur kjarna þetta bara nokkuð vel. Það verður mjög spennandi verkefni fyrir okkur í atvinnuveganefnd að taka vinnuna í kringum þetta, skiptast á skoðunum, fá gesti og ræða hlutina vegna þess að tækifæri til landbúnaðar og matvælaframleiðslu á Íslandi eru gríðarleg. Við erum framleiðsluland. Ég myndi telja að við getum gert mun meira í því heldur en við erum að gera í dag að framleiða mat. Tækifærin eru hérna og við höfum allt hér sem vinnur með okkur í því.

Kærar þakkir, hæstv. matvælaráðherra, fyrir að koma fram (Forseti hringir.) með landbúnaðarstefnu.