Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[14:59]
Horfa

Thomas Möller (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir frumkvæðið í þessu máli. Mér er mjög hlýtt til bænda og landbúnaðar, eins og okkur í Viðreisn, og sérstaklega hef ég taugar til landbúnaðar, ég var kúasmali í sjö ár í Hrunamannahreppi og ég ætlaði að verða bóndi. Svo breyttist það. Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi stefnumótunar í þessari grein. Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi landbúnaðar. Það er alveg ljóst að landbúnaðarbyltingin sem varð á Íslandi er einhver sú stærsta sem hefur orðið í þessu landi. Um 1900 voru um 90% landsmanna bændur og unnu í landbúnaði. Mér skilst að 90% þingmanna hafi verið bændur líka þannig að við tengjumst þessu á ýmsan hátt. Síðan hefur náttúrlega orðið þessi gríðarlega bylting og í dag má segja að landbúnaður sé að hluta til stóriðja. Ég hef sjálfur heimsótt tvö stór mjólkurbú, Flatey á Mýrum og Gunnbjarnarholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, og þar sannast eiginlega krafturinn í landbúnaðinum. Þarna eru gríðarlega öflug fjós, mjólkurframleiðslubú sem framleiða mjólk á heimsmælikvarða, afköst og framleiðni er á heimsmælikvarða að mínu mati.

Ef ég vík aðeins að þessu stefnumótunarskjali þá er ýmislegt sem ég myndi hvetja hæstv. ráðherra til að taka upp í stefnumótuninni. Það er nefnilega þannig að landbúnaðurinn er með fimm haghafa, ekki bara bændur. Haghafar landbúnaðar eru neytendur líka, það er náttúran, vinnslustöðvarnar og skattgreiðendur. Mig langar til að hvetja hæstv. ráðherra til að taka umræðuna um náttúruna í auknum mæli inn í þetta skjal. Við vitum að ímynd bænda er oft tengd umgengni um náttúruna. Í fréttum er talað um ofbeit þar sem kindum er beitt á viðkvæmt land. Þetta þarf að taka mun fastari tökum í þessu skjali, einnig umgengni um náttúruna og framræsluskurði. Ég las það nýlega að í landinu eru um 33.000 km af landgræðsluskurðum, það nær svona sirka í kringum hnöttinn, en aðeins 10% þeirra eru notaðir við ræktun. Þarna ættu bændur og matvælaráðuneytið að taka til hendinni og sýna í verki að það er hægt að loka skurðum án þess að það hafi nokkur áhrif, samkvæmt þessum skýrslum sem ég hef lesið, á afkastagetuna en getur haft áhrif á bindingu kolefnis.

Það sem ég vil taka sérstaklega til umræðu hérna eru neytendur og skattgreiðendur. Við vitum að við styðjum landbúnað með ýmsum hætti. Mér sýnist þetta vera í kringum 16–17 milljarðar sem bændur fá á hverju ári. Ég sé ekkert eftir þeim peningum, ég tel að við þurfum að styðja við þessa framleiðslu, en við ættum að mínu mati að fara úr framleiðslutengdum styrkjum yfir í landnotkunarstyrki eins og er gert í Evrópu. Það eru engir framleiðslustyrkir þar lengur, það er ekkert sem hvetur til framleiðslu þar, bara áhersla á jarðnæði og umgengni um jarðnæði. Það á í rauninni ekki að vera að hvetja til framleiðslu sem kannski er ekki einu sinni hægt að selja almennilega nema til útlanda.

Það sem mér finnst standa eiginlega mest upp úr hér eru þessir verndartollar sem eru settir á landbúnaðarvörur. Hagfræðistofnun hefur reiknað út að þessir verndartollar kosti neytendur um 30 milljarða á ári. Þetta er eitthvað sem að mínu mati er eiginlega óþarfi. Landbúnaðurinn á Íslandi á að geta starfað án verndartolla, það sé ekki verið að tvöfalda verð á innfluttum osti eða tvöfalda verð á innfluttum kjúklingi. Íslenskur landbúnaður hefur að mínu mati allan styrk og getu til að keppa við erlendan landbúnað í gæðum og líka í verði. Við viljum borga hærra verð fyrir góða vöru. Mér finnst vanta inn í þessa stefnumótun umfjöllun um þetta viðskiptafrelsi sem er ekki í gangi. Við vitum að verndartollar voru teknir að mestu af grænmetinu og eftir það blómstraði grænmetisiðnaðurinn, þannig að ég tel að þarna þurfi að huga betur að hagsmunum neytenda.

Svo vil ég geta þess líka, af því að það er mikið talað um fæðuöryggi, að fæða er náttúrlega meira en bara kjöt og mjólk. Fiskur er líka fæða. Það má geta þess að við veiðum um milljón tonn af fiski á ári. Það eru fimm tonn á mann. Fiskur er náttúrlega líka matur sem stuðlar að fæðuöryggi, mér finnst við stundum gleyma því þegar við erum að hamra á fæðuöryggi.

En ég vil geta þess að við í þingflokki Viðreisnar ætlum að taka á móti bændum núna á eftir og munum segja þeim frá okkar stefnu í landbúnaði sem byggist fyrst og fremst á því að bændur verði frjálsari, geti framleitt sem frjálsir bændur. Ég tel líka varðandi ímynd bænda að það sé allt of mikið talað um það, og það kom fram m.a. í ræðu hjá hv. þingmanni, að bændur séu alltaf blankir. Það er bara ekki þannig. Það er fullt af bændum sem hagnast vel á sinni framleiðslu og þá nefni ég þessi stóru mjólkurbú. Það er stórkostleg upplifun að koma í þessi öflugu mjólkurbú. Ég vildi óska þess að það væri meira talað um þá bændur sem geta vel lifað af sinni vinnu því hitt fælir fólk frá því að fara í bændastéttina, þegar við erum alltaf að tala um það í fjölmiðlum hvað þetta er erfitt, hvað sauðfjárbúskapur er erfiður o.s.frv. — Ég hef lokið máli mínu.