Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 92. fundur,  30. mars 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[15:11]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann minntist hér á Finna og þann stuðning sem þeir fá frá Evrópusambandinu, get ég alveg tekið undir það, en það hefur orðið veruleg breyting núna á einu ári frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Verkefni matvælaframleiðenda er að framleiða meiri mat og skilaboð WTO til matvælaframleiðenda og hins opinbera eru: Beinið stuðningi beint á framleiðslu vegna þess að við þurfum að framleiða mat, ekki vera að borga bara fyrir það að gera eitthvað. Sú breyting hefur átt sér stað bara núna á einu ári. Og við þekkjum öll umræðuna hér um fæðuöryggi og allt sem því viðkemur.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er töluvert af bændum sem hefur það bara mjög gott. Það er alveg hárrétt. Ég kom líka inn á það í minni ræðu áðan að það er í þeim atvinnugreinum sem hafa þróast með nútímanum. Hv. þingmaður minntist hér á mjög reisuleg kúabú þar sem mjólkurframleiðsla er og ég get tekið undir það, en þar er aftur á móti gríðarleg fjárbinding. Þá komum við að þessu sem við vorum að ræða líka hér fyrr í umræðunni sem snýr að ættliðaskiptum. Ég held að það sé ekki nein ein leið rétt í því hvert á að fara, við þurfum alltaf að sníða stakkinn að þeim þörfum sem uppi eru hverju sinni því að misjafnt er á milli landa hvernig best er að standa að matvælaframleiðslu.