Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Hæstv. forseti. Aldursfordómar byggja á neikvæðum viðhorfum og gildum sambærilegum og kynþáttafordómar og kynjafordómar. Vegna aldursfordóma eru reynsla, þekking og vitsmunir hinna eldri ekki metin í starfsumsóknum vegna aldurs. Þetta viðhorf er í sókn. Um 1.800 manns sem komin eru yfir fimmtugt eru í atvinnuleit á skrá Vinnumálastofnunar og mörg þeirra hafa verið það í ár eða lengur. Það eru mýmörg dæmi um að starfsumsóknir fólks sem er orðið fimmtugt eða eldra, séu hunsaðar um leið og kennitalan ein birtist á fyrstu síðu umsóknar um starf. Það er ekki einu sinni litið á starfsferilskrána, bara kennitöluna — bara kennitöluna. Kennitalan er einfaldlega ekki rétt.

Eigum við að tala um íslensku kennitöluna? Það er varla hægt að sanna tilveru sína við afgreiðslu í opinberum stofnunum nema segja stundarhátt hver er kennitalan þín er; hvað þú ert gamall. Nafn þitt skiptir engu. Það eru til margar aðferðir við að búa til kennitölur. Sú aðferð sem hefur verið notuð á Íslandi byggir á fæðingardegi og fæðingarári viðkomandi. Það er bara ekkert náttúrulögmál að kennitölukerfið sé byggt upp eins og íslenska kennitöluaðferðin, sem hefur beinlínis stuðlað að og eflt aldursfordóma, sérstaklega á vinnumarkaði.

Er ekki kominn tími til að við horfumst í augu við það? Er ekki kominn tími til að við búum til nýtt kennitölukerfi sem styður ekki við aldursfordóma? Það liggur mikill auður í eldra starfsfólki. Látum ekki tíu talna röð verða til þess að hæfu og reynslumiklu fólki sé sópað burt af vinnumarkaðinum. Vinnum gegn aldursfordómum, endurskoðum kennitölukerfið.