Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Hvað er tengslaröskun? Tengslaröskun er skilgreind í ICD-10-sjúkdómaflokkunarkerfinu sem svörunartengslaröskun sem er röskun sem getur einungis komið fram vegna félagslegrar vanrækslu í bernsku, sem þýðir með öðrum orðum að barnið hafi skort viðeigandi umönnun. Afhömluð tengslaröskun er aðallega greind hjá börnum sem hafa fengið umönnun margra aðila í frumbernsku, t.d. ættleidd börn. Í svari frá heilbrigðisráðherra um tengslaröskun segir:

„Svörunartengslaröskun er mun algengari en hin. […] Mikil skörun er milli tengslaröskunar og annarra raskana og oft erfitt að greina á milli einhverfurófs- og tengslaraskana þar sem um er að ræða svipuð einkenni og vandamál hlutaðeigandi barna.“

Samkvæmt upplýsingum frá barna- og unglingageðdeild Landspítala hafa samtals 78 börn verið greind með tengslaröskun frá árinu 2002 og tvö hjá Geðheilsumiðstöð barna en sjálfstætt starfandi sérfræðingar í barna- og unglingageðlækningum greina einnig tengslaröskun og við höfum ekki tölur yfir þau börn sem eru greind á einkastofum.

Ástæðan fyrir því að ég er að tala um þetta er vegna svipaðra einkenna hjá börnum með tengslaröskun og börnum með einhverfu. Einn hópurinn fær fötlunargreiningu en ekki hinn. Einn hópurinn fær stuðning út í samfélagið en ekki hinn. Sérfræðingar eiga erfitt með að greina á milli þessara raskana en það eru þau börn sem eru vanrækt sem fá þessa greiningu. Það er sagan sem gerir það að verkum að þau eru líklegri til að fá þessa greiningu og fá mögulega ekki þjónustu sem þau þurfa til að vaxa og dafna í samfélaginu.

Forseti. Ég er efins um að tengslaröskunargreining hjálpi þessum viðkvæma hópi. Það þarf að finna nýjar lausnir á þessu svo börn með tengslaröskun fái alltaf þjónustu við hæfi.