Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

niðurskurður fjár vegna riðu.

[15:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hæstv. ráðherra fór yfir það að verið væri að skoða eitt og annað á vegum stjórnvalda og m.a. hina verndandi arfgerð sem hefur sem betur fer fundist og tekst vonandi að styðja við að hún breiðist út eins hratt og mögulegt er. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin til að hafa frumkvæði að því að vísindin, þær stofnanir sem til þess eru bærar, taki afstöðu núna — ég ímynda mér að það hafi verið gert á einhverjum tímapunkti í fortíðinni — og endurskoði það hvort til greina komi að nálgast mál með þeim hætti að heildarniðurskurður verði ekki eina lausnin sem bændur standa frammi fyrir. Eins og við þekkjum þá hefur þeim samningum sem gerðir hafa verið við bændur sem hafa orðið fyrir því að þurfa að skera niður vegna riðu verið líkt við starfslokasamninga.