Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:50]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir góða fyrirspurn um ríkisfjármálaáætlun. Ég vil fyrst nefna að það var mjög ánægjulegt þegar við sáum að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði mjög hratt nokkrum dögum eftir að ríkisfjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra var kynnt, sem gefur auðvitað til kynna að markaðsaðilar hafi trú á því að innlegg hennar sé til þess fallið að aðstoða Seðlabanka Íslands við að ná tökum á verðbólgunni. Þar sáum við því strax jákvæð teikn á lofti.

Í annan stað vil ég nefna að það er auðvitað aðhaldskrafa, þessi klassísku 2%, á öll ráðuneyti. Ég get t.d. sagt það fyrir þá málaflokka sem ég ber ábyrgð á að umfang þeirra er að lækka allt þetta kjörtímabil miðað við ríkisfjármálaáætlun þannig að við þurfum að ráðast í aðgerðir til að koma til móts við það.

Í þriðja lagi er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að samspil peningastefnu og ríkisfjármálastefnu sé mjög þétt og trúverðugt til að ná niður verðbólgunni. Við munum alla vega gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að stuðla að því að svo sé. Ég skil vel þá gagnrýni sem er uppi vegna þess að við höfum ekki séð svona háar verðbólgutölur í langan tíma. En þess ber þó að geta að ávöxtunarkrafan lækkaði strax sem var mjög jákvætt og kemur þá einnig inn í verðbólguvæntingar.