Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:03]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit og þekkir betur en við mörg hver þá markaði í raun og veru þessi uppgötvun algjör þáttaskil í sauðfjárrækt þegar lá fyrir að þessi verndandi arfgerð væri fyrir hendi. En um leið vitum við að hún er tiltölulega sjaldgæf í íslenska sauðfjárstofninum og samkvæmt tölum sem ég er með hér er von á bilinu 2.700-3.000 lömbum sem bera munu þessa verndandi arfgerð nú í vor úr þeim 5.500–6.000 lömbum sem fæðast undan þessum hrútum. Þannig er umræða um að taka tugi eða hundruð þúsunda sýna í vor kannski ekki raunhæf lausn á stöðunni ef við getum sagt sem svo. Þetta eru tölur sem þarf að meta alltaf í þessu stóra samhengi og ég vænti þess að sjá og fá upplýsingar frá mínu besta fólki sem er undir forystu yfirdýralæknis um það hvaða skref er mikilvægt að taka. Það er mikilvægt að taka þau öll í samstarfi og samráði við þá bændur sem um ræðir og auðvitað við sauðfjárræktina alla og Bændasamtökin. En það sem þarf að liggja algjörlega fyrir er það að við stöndum saman eins og einn maður í þessari baráttu og stjórnvöld verða til að styðja við þau skref sem þarf að stíga en ekki til að koma í veg fyrir þau.