Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Við umræðu um fjármálaáætlun er auðvitað fullt tilefni til að gera athugasemdir við alla ráðherra vegna gegndarlausra útgjalda þessarar ríkisstjórnar sem hefur slegið öll met í því samhengi. Ég ætla þó að nálgast fyrirspurn til hæstv. matvælaráðherra, þar með talið landbúnaðarráðherra, á aðeins annan hátt því að það sem hefur skorið sig úr í fjármálaáætlunum ríkisstjórnarinnar alveg frá upphafi, frá fyrstu fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar, er að það svið þar sem menn sjá helst tækifæri til að spara og draga úr útgjöldum og lækka þau jafnvel ár frá ári er í landbúnaði. Bændur eru eina stéttin sem að meira eða minna leyti reiðir sig á tekjur frá ríkinu fyrir að veita samfélaginu sína þjónustu og mega aftur og aftur búa við það að sjá bara fram á skerðingar. Og enn er haldið áfram á þessari braut. Þrátt fyrir þessi stórkostlegu útgjöld ríkisstjórnarinnar þá er sparað í landbúnaði, í fjárfestingu í raunverulegri verðmætasköpun sem sparar auðvitað gríðarlega mikilvægan gjaldeyri til viðbótar við það að vera þáttur í öryggi landsins, fæðuöryggi o.s.frv. Hvernig stendur á þessu? Hvað sem líður athugasemdum hæstv. ráðherra um aukna kornrækt, sem er auðvitað mjög jákvætt að skuli eiga að stefna að, hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að framlög til annarrar framleiðslu, þeirrar sem fyrir er í íslenskum landbúnaði, muni þróast á næstu árum? Verður áfram sótt að greininni og dregið úr stuðningi við hana? Og ég spyr alveg sérstaklega, frú forseti, um kjötframleiðslu því að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því skýrt. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að kjötframleiðsla þróist á Íslandi? Mun hún aukast eða verður dregið úr henni?