Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Varðandi Háskólann á Akureyri og frekari stuðning eða umsvif þar þá er það alveg skýrt að við lítum svo á og það hefur verið þannig undanfarin ár að á Akureyri er töluverð uppbygging og uppbygging fram undan á sviði norðurslóðamálefna og þau eiga auðvitað í mjög góðu samstarfi til að mynda í Tromsö og annars staðar. Ég lít svo að á því svæði liggi gríðarleg tækifæri fyrir okkar sérstöðu í norðurslóðamálum og það sé sá staður þar sem það muni byggjast upp. Stefna Íslands á norðurslóðum er fyrst og fremst að stuðla að stöðugleika og friðsælli þróun á norðurslóðum og á grundvelli alþjóðalaga. Hins vegar er það þannig að öryggismál á norðurslóðum hafa tekið talsverðum breytingum á síðustu árum og við höfum verið með mjög skýran vilja um að svæðið haldist sem lágspennusvæði. Ég trúi því að við séum öll sammála um það og vonandi öll átta. Svo er það verkefni fyrir okkur að finna út úr því hvernig við höldum því samstarfi áfram því að eins og með málefni hafsins, sem hv. þingmaður nefndi, þá eru gríðarlega stór verkefni sem fara ekkert og spyrja ekki um það hvort það sé stríð eða annað. Við munum þurfa að finna einhverja leið til að viðhalda þessu samstarfi sem er gríðarlega mikilvægt, bæði út frá loftslagsmálum, frumbyggjum og bara öllum þeim íbúum (Forseti hringir.) sem þarna búa, vegna þess að svæðið mun taka miklum breytingum á komandi árum og áratugum.