Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér yfirlýsingu vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á árinu 2005 sem innihélt eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í tengslum við samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá því í dag hefur ríkisstjórnin gefið út yfirlýsingu, þar sem stjórnvöld lýsa sig reiðubúin til samstarfs við Alþýðusamband íslands og Samtök atvinnulífsins um leiðir sem, auk aðgerða á vettvangi lífeyrissjóðanna sjálfra, draga úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóða og jafna stöðuna milli einstakra sjóða. […]

Ríkisstjórnin lýsir því jafnframt yfir að hún er reiðubúin til að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til 0,25% af tryggingagjaldsstofni samkvæmt nánari útfærslu milli aðila og komi til framkvæmda á þremur árum, 0,15% 2007, 0,20% 2008 og 0,25% 2009.“

Ekki er hægt að sjá annað en að þetta hafi gilt allar götur síðan. Lífeyrissjóðirnir bera mismunandi örorkubyrði og er örorkubyrðin mest hjá þeim lífeyrissjóðum þar sem fólk vinnur líkamlega erfiða vinnu. Ef dregið verður úr framlagi til jöfnunar örorkubyrði mun það hafa mikil áhrif á möguleika þeirra lífeyrissjóða sem hæstu örorkubyrðina bera til að greiða sínum sjóðfélögum eftirlaun.

Virðulegi forseti. Á bls. 357 í fjármálaáætlun er þennan texta að finna:

„Gert er ráð fyrir 16,3 milljarðar kr. auknum framlögum á tímabili áætlunarinnar vegna heildarendurskoðunar örorkulífeyriskerfisins. Þá er gert ráð fyrir að framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna verði endurskoðað og það svigrúm sem skapast verði nýtt til að styðja við áformaðar breytingar.“

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki annað séð en að með þessu eigi að færa til fjármagn sem áður nýttist til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna (Forseti hringir.) til að endurskoða greiðslur til örorkulífeyrisþega. Ef rétt reynist þá er þetta grafalvarlegt mál og ég vil því biðja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að skýra þetta út fyrir mér.