Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:14]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna hér í dag. Hann nefnir hér jöfnun á örorkubyrði og það er alveg rétt sem hann segir, enda vísar hann beint í fjármálaáætlunina, að við ætlum okkur að taka það til endurskoðunar núna samhliða í rauninni endurskoðun örorkulífeyriskerfisins. Mér skilst að á þeim tíma sem þetta var tekið upp þá hafi hugmyndin í rauninni verið sú að þegar kerfið yrði tekið til endurskoðunar þá ætti þetta líka að koma til endurskoðunar. Það er það sem er verið að gera hér. Segjum sem svo að það verði farið alla leið og allir þeir fjármunir sem fara í jöfnun örorkubyrði fari út, segjum það bara, ég er ekki að gefa mér það en segjum að svo yrði, þá myndi það náttúrlega ekki að vera nægjanlegt til að borga þær breytingar sem um er að ræða í endurskoðuninni á örorkulífeyriskerfinu. En það er vilji til þess að leggjast yfir þetta og skoða þetta atriði og á sama tíma að við værum þá að taka upp sams konar kerfi, ef lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir til þess, þ.e. að við séum að miða við sams konar kerfi og þegar við erum að meta örorkuna, erum að meta örorku og starfsgetu sem við ætlum okkur að breyta í nýju kerfi. Í dag er þetta læknisfræðilegt mat en við teljum, í samræmi við leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni meðal annarra, að hér þurfi líka að líta til sálfræðilegra þátta og félagslegra þátta í umhverfi fólks.