Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þetta málefni upp. Það er fjölbreytt þjónusta sem við þurfum að sinna fyrir þennan hóp. Við erum oft að tala um búsetu, félagslegan stuðning, viðhaldsmeðferð eftir atvikum og svo að vera tilbúin þegar á þarf að halda; hafa aðgengi opið þegar fólk er á þeim stað í lífinu að þurfa stuðninginn, að það sé opið. Við tölum um skaðaminnkandi úrræði, þau þurfa að vera fjölþætt og vera á ýmsum stöðum og þau eru það í kerfinu okkar. Við þurfum að stíga markvissari skref, met ég, í áttina að aukinni skaðaminnkun.

Hv. þingmaður vísar hér til viðhaldsmeðferðar sem sjúkrahúsið Vogur hefur sinnt í allmörg ár og þeim fjölgar því miður sem þurfa meðferð. Það eru u.þ.b. 700 manns, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem nota vímuefni í æð á Íslandi og þeim fer fjölgandi. Við höfum verið með skaðaminnkandi úrræði, til að mynda var hér sérútbúinn bíll, Ylja, sem var neyslurými sem reyndist mjög vel. En síðan höfum við verið að vinna í því með Reykjavíkurborg að finna því fastan stað. Það liggur fyrir að það vantar jafnvel fleiri neyslurými af því að þessi þjónusta hefur reynst mjög vel.

Við erum að vinna í því í ráðuneytinu núna, í starfshópi (Forseti hringir.) sem tók til umræðu frumvarp um afglæpavæðingu, en ég skal halda áfram með þetta í seinna andsvari.