Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[17:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að byrja á því að þakka fyrir þetta frumvarp, sem ég held að sé bara mikilvægt framhald af farsældarlögunum. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að við í allsherjar- og menntamálanefnd munum vinna þetta vel og vonandi hratt því að ég held að þetta sé mikilvægt mál. En á sama tíma bíð ég líka spennt eftir því að við förum kannski að tala meira á dýptina um menntun barna á Íslandi.

En mig langar að koma hingað upp og spyrja hv. þingmann einmitt meira út í þær tölur sem hér eru staðhæfðar. Nú ætlar enginn hér í þessum sal að tala fyrir því að fátækt barna á Íslandi sé eitthvað sem við eigum að „bekenna“, finnast í lagi, alls ekki. En þeim mun meiri ástæða finnst mér til að við förum varlega í þessa umræðu. Hv. þm. Inga Sæland var hérna í lok síðasta andsvars að vísa í mismunandi tölur, þannig að ég verð eiginlega að biðja hana, svo að ég geti skilið þetta betur, að segja hvaða tölur hún er að vísa í þegar hún talar um að 44% fleiri börn búi nú við fátækt á Íslandi. Því að þegar ég les tölurnar frá Hagstofunni og þegar ég les skýrsluna frá Barnaheill þá sé ég ekki þessa tölu, þó að það sé vissulega mikið áhyggjuefni að börn búi við fátækt á Íslandi. En þá spyr ég bara, hv. þingmaður: Á hvaða tölum byggir hún það að fátækt barna hafi aukist um 44%?