Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, um geymslu og nýtingu fósturvísa og kynfrumna. Þetta frumvarp var samið í heilbrigðisráðuneytinu í samráði við dómsmálaráðuneytið í þeim tilgangi að breyta ákvæðum laganna sem nú kveða á um eyðingu kynfrumna og fósturvísa við hjúskapar- eða sambúðarslit eða andlát þrátt fyrir að geymslutími þeirra sé ekki liðinn. Lýtur breytingin að því að einstaklingum verði gert heimilt að samþykkja sameiginlega notkun þrátt fyrir skilnað eða eftir atvikum notkun eftirlifandi maka á kynfrumum eða fósturvísum í stað skyldunnar til að eyða kynfrumum eða fósturvísum ef svo ber undir að annar aðilinn andast eða hjúskap eða sambúð aðila lýkur.

Markmiðið með frumvarpinu er að virða vilja einstaklinga eða pars sem hefur geymt kynfrumur eða fósturvísa í tæknifrjóvgunarferli til að nýta kynfrumur eða fósturvísa þrátt fyrir andlátið eða breytingu á sambúðarformi aðila. Með þessari breytingu er viðkomandi einstaklingum því falið ríkara ákvörðunarvald yfir eigin kynfrumum og fósturvísum við framangreindar aðstæður.

Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til í frumvarpinu er einstaklingum falið ríkara ákvörðunarvald yfir kynfrumum og fósturvísum sínum þegar svo ber undir sem að framan greinir. Með breytingunni er ekki verið að heimila gjöf fósturvísa og notkun þriðja aðila. Eingöngu þeim sem stóðu að geymslu fósturvísa er heimilt að samþykkja notkun eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit og er með notkun átt við nýtingu í eigin líkama. Þá er þeim sem eiga kynfrumur í geymslu eingöngu heimilt við sambærilegar aðstæður að samþykkja notkun fyrrverandi eða eftirlifandi maka í eigin líkama. Eðli málsins samkvæmt er því einungis heimilt að samþykkja notkun leghafa á kynfrumum eða fósturvísum eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit.

Virðulegi forseti. Megintilgangur tæknifrjóvgunar er einkum sá að hjálpa fólki, eftir atvikum barnlausu, að eignast barn. Tæknifrjóvgunarmeðferð er almennt tímafrekt og mjög kostnaðarsamt ferli sem einnig getur verið líkamlega og andlega erfitt. Með geymslu kynfrumna er fólki m.a. gert kleift að stefna að varðveislu frjósemi og barneignum eftir erfiða sjúkdóma eða meðferð sem hefur áhrif á frjósemi. Með geymslu fósturvísa getur fólk stefnt að því að draga úr álagi og kostnaði við frekari tilraunir til barnaeigna. Hvort tveggja getur einnig dregið úr þörf fyrir notkun gjafakynfrumna og stuðlað að því að börn þegar fædd deili erfðaefni með systkinum sínum. Einnig þarf að líta til þess að gæði kynfrumna dvína með hækkandi aldri. Nýting einstaklinga á kynfrumum eða fósturvísum í geymslu gæti þannig verið eina tækifærið til barneigna þar sem viðkomandi hefur mögulega ekki aðrar nothæfar kynfrumur en þær sem þegar hafa verið lagðar til í tæknifrjóvgunarferlinu.

Þá er æskilegt að draga úr mun á réttarstöðu fólks í mismunandi fjölskylduformi. Samkvæmt gildandi lögum getur t.d. einstæð kona nýtt fósturvísa sem verða til í tæknifrjóvgunarferli. Kona í parsambandi getur á hinn bóginn ekki nýtt fósturvísa eftir skilnað eða sambúðarslit eða andlát maka þrátt fyrir að vilji maka kunni að standa ótvírætt til þess. Í báðum tilvikum getur verið um að ræða egg konunnar sjálfrar eða afrakstur mikils kostnaðar og langs biðtíma eftir gjafaeggi.

Með framangreint í huga er mikilvægt að auka heimildir fólks til að taka upplýstar ákvarðanir um notkun kynfrumna og fósturvísa eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit.

Virðulegur forseti. Hér er nauðsynlegt að tryggja skýrlega réttarstöðu barna sem verða til við þessar aðstæður. Ákvæði frumvarpsins um heimild til að samþykkja notkun kynfrumna eða fósturvísa eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit kölluðu því á vandlega skoðun á barnalögum enda nauðsynlegt að taka skýra afstöðu til þess hverjir skuli teljast foreldrar barns við þessar aðstæður. Við þær aðstæður sem frumvarpið tekur til er talið réttast að þeir einstaklingar sem standa saman að ákvörðuninni, þ.e. leghafinn sem óskar eftir tæknifrjóvgun og fyrrverandi maki sem samþykkt hefur notkun leghafans á kynfrumum eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, verði foreldrar barns sem þannig er getið.

Fyrrgreindar lausnir taka mið af því að gildandi reglur um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun gildi óháð uppruna kynfrumna, þ.e. um getur verið að ræða kynfrumur frá báðum einstaklingum eða öðrum þeirra eða alfarið gjafakynfrumur. Samkvæmt framangreindu er ljóst að þegar um tæknifrjóvgun er að ræða hefur löggjafinn mælt skýrt fyrir um að samþykki þess sem óskar að verða foreldri ráði meiru en uppruni kynfrumna. Ekki þykja standa rök til þess að foreldrastaða við tæknifrjóvgun eftir andlát, skilnað eða sambúðaslit verði mismunandi eftir uppruna kynfrumna.

Samkvæmt ákvæðum barnalaga getur barn einungis átt tvo foreldra. Með hliðsjón af því þykja standa skýr rök til þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun á sér stað.

Gildandi lög takmarka vilja einstaklinga til að nýta kynfrumur eða fósturvísa við tilteknar aðstæður. Þannig geta pör sem standa saman að tæknifrjóvgunarferli ekki nýtt fósturvísa, sem verða til í ferlinu og þau eiga í geymslu, ef til skilnaðar, sambúðarslita eða andláts kemur. Þá getur kynfrumugjafi ekki heimilað eftirlifandi eða fyrri maka að nýta kynfrumur sem viðkomandi á í geymslu.

Í þessu frumvarpi er lagt til að breyta ákvæðum laganna sem kveða á um eyðingu kynfrumna eða fósturvísa við andlát, skilnað eða sambúðarslit þrátt fyrir að geymslutími þeirra sé ekki liðinn. Breytingin miðar að því að rýmka heimildir einstaklinga til að taka ákvarðanir um það hvort kynfrumum eða fósturvísum sé eytt við framangreindar aðstæður eða hvort eftirlifandi eða fyrrverandi maki megi nýta eftir atvikum kynfrumur eða fósturvísa sem einstaklingar lögðu til í tæknifrjóvgunarferlinu. u. Er litið svo á að hjúskapur eða skráð sambúð þurfi ekki endilega að vera grundvöllur notkunar kynfrumna eða fósturvísa heldur frekar samvinna, virðing og gott samband þeirra einstaklinga sem standa að ákvörðuninni.

Hér þykja ríkir hagsmunir standa til þess að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér nái fram að ganga.

Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta að málinu verði vísað, að lokinni þessari 1. umr., til hv. velferðarnefndar og 2. umr.