Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[15:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta kemur kannski ekki alveg hárnákvæmt inn í þetta mál en er dálítið tengt því, því að hv. þingmaður minntist á að það væri ekki skoðun hennar að hið opinbera ætti að vera að skipta sér af hvernig fólk hagaði fjölskyldumálum sínum og hvernig það myndaði fjölskyldu. Mér finnst það mjög áhugavert sjónarmið. Segjum sem svo að eitt af systkinum í fjölmennum systkinahóp falli frá og kannski vilji hin systkinin ættleiða börn þess systkinis sem fellur frá, en þá er fjöldatakmörkun þar á, merkilegt nokk. Ef það eru þrjú eftirlifandi systkini þá geta þau ekki öll ættleitt saman börn þess systkinis sem lést. Þegar maður pælir í því þá eru foreldrar almennt séð óskyldir og af hverju geta þá ekki þrír eða fjórir foreldrar ættleitt börn saman? Það er vissulega flóknara með tæknifrjóvganir en þetta eru spurningar sem vakna einmitt við skoðun á þessu frumvarpi um það hvað við teljum vera eðlilegt og hvað er í rauninni eitthvað sem við þröngvum upp á aðra að sé eðlilegt. Sitt sýnist hverjum í því. Við höfum upplifað fyrir ekki svo mörgum árum síðan byltingu með samkynhneigð, trans, sís eða intersex og við erum að skilja betur hversu miklu meiri vídd er í þessum málum. Af hverju þá að takmarka við fjölda?