153. löggjafarþing — 98. fundur,  25. apr. 2023.

vopnalög.

946. mál
[20:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og þessa ræðu. Ég verð að viðurkenna að manni er mjög brugðið þegar maður les þessa tölu yfir öll þau vopn sem hér eru í landinu og þá miklu aukningu sem orðið hefur á innflutningi þannig að ég tel þetta mál mjög brýnt. Mig langar líka að þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom hér áðan inn á frumvarp sem hann lagði fram og ég var reyndar meðflutningsmaður á er varðar boganotkun ungmenna. Mér finnst alveg einsýnt að ef við erum að fara í þessar breytingar þá tryggjum við alla vega að íslensk ungmenni búi við sama umhverfi og ungmenni á Norðurlöndum þegar kemur að keppni í þeirri íþróttagrein. Ég hyggst skoða það í vinnslu þessa máls og mun örugglega beina spurningum til ráðherra og ráðuneytisins um að veita okkur aðstoð við slíkar breytingar.