Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

982. mál
[18:29]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Við þingmennirnir erum ekkert ósammála og þetta eru bara fínir punktar. Þegar þú ert í þeirri viðkvæmu stöðu að þurfa að sækja þér heilbrigðisþjónustu, hvort sem það er bráðaþjónusta eða eitthvað annað, þá viltu auðvitað skilja viðkomandi starfsmann og að viðkomandi skilji þig. Það er auðvitað lykilþáttur þegar við erum að tala um heilbrigðisgeirann. En það eru auðvitað aðrir þættir og aðrir geirar sem við getum leyft okkur að vera opnari með, útfært aðeins öðruvísi. En við erum líka að horfa á það að sérnámslæknum fjölgar ekki nógu hratt og það leiðir líkur að því frekar að við þurfum kannski að flytja inn fólk, fá fólk að utan sem kann kannski ekki íslensku, kann kannski bara eitt tungumál, ég veit það ekki, það eru bara alls konar aðstæður hjá þeim fjölbreyttu einstaklingum sem munu koma og þá þurfum við bara að sjá þeim fyrir almennilegri íslenskukennslu. Ég veit að íslensk stjórnvöld hafa verið að veita fjármagn í auka íslenskukennslu. Hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom í fréttum bara í gær eða fyrradag og leiðrétti þær rangfærslur að stjórnvöld væru ekki að leggja sérstaklega til fé í íslenskukennslu en þar hlupu tölurnar á hundruðm milljóna, 150, 160, minnir mig, á háskólastiginu. Þannig að það er vissulega verið að leggja kraft í tungumálakennsluna en við þurfum að liðka til reglurnar og við þurfum að liðka fyrir fólki sem er utan EES að koma hingað. Það er búið að kynna aðgerðir og ég bíð spennt eftir því að þær verði að veruleika og þeim þarf að hrinda í framkvæmd sem fyrst.