Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

Kjaragliðnun.

[16:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að við séum hérna að ræða um kjör þeirra sem hafa lægstu upphæðirnar sér til framfærslu. Mér finnst það vera eitthvað sem við eigum að bæta í okkar samfélagi, þ.e. bilið milli þeirra sem lægstu tekjurnar hafa og þeirra sem hæstu tekjurnar hafa, vegna þess að í mínum huga er gott samfélag samfélag þar sem jöfnuður ríkir og það er erfitt að tala um að jöfnuði hafi verið náð nema allir geti haft mannsæmandi framfærslu. Í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa kjör eldri borgara batnað verulega. Það voru sérstaklega stigin skref til þess að bæta kjör þeirra sem bjuggu við alverstu kjörin og það skiptir gríðarlegu máli. Ég get alveg tekið undir það að þar þurfum við að gera enn betur en sem betur fer er líka mikið af eldra fólki sem býr við góð kjör. Í júní síðastliðnum voru bætur til örorkulífeyrisþega hækkaðar um 3% vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til að draga úr áhrifum verðbólgu á kjör viðkvæmra hópa og það er mikilvægt og það var rétt að gera.

Mig langar að minnast á, af því að við erum að tala um þau með lægstu kjörin, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Samkvæmt heimasíðu Reykjavíkurborgar fær einstaklingur nú 217.799 kr. í fjárhagsaðstoð. Þar þarf svo sannarlega að gera mun betur og koma til móts við verðbólguna.

En það sem ég tek út úr þessari umræðu er samhljómurinn um að við þurfum að halda áfram að bæta kjör þeirra sem hafa lægstu upphæðirnar og því fögnum við Vinstri græn og göngum glöð til þeirra verka.