Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

923. mál
[18:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir framsöguna í þessu máli og góðar skýringar á því hvað þetta stutta frumvarp er að reyna að laga. Mig langaði samt í fyrra andsvari mínu að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki í rauninni orðin tímaskekkja að vera yfir höfuð að reyna að passa að það sem gerist í dómsal komist ekki til einhvers annars. Ég þarf ekki að streyma í hljóði eða mynd héðan úr þingsal t.d. til að geta fylgst með nákvæmlega hvað er að gerast vegna þess að í dag er tæknin orðin þannig að ég get einfaldlega verið með forrit í gangi hjá mér sem hlustar á það sem er sagt. Því er breytt yfir í texta, nokkuð vel á íslensku; svona talgreini sem ég gæti verið með þannig upp settan að hann sendi einhverjum annars staðar textann. Þetta myndi ekki stoppa það. Lögin í dag myndu ekki stoppa það vegna þess að þar er ég ekki að streyma hljóði eða mynd. Ég spyr mig því í rauninni: Ef við ekki bara heimtum að allir skilji eftir öll tæki og alla síma þegar þeir fara inn í dómsalinn, er í rauninni hægt orðið í dag að reyna að tryggja að hlutirnir fari ekki bara beint eitthvert annað? Verðum við ekki frekar að reyna að framkvæma skýrslutökur og annað á þannig máta eða gera einhverjar aðrar breytingar til að tryggja að þessi spjöll eigi sér ekki stað?